Forsetaframbjóðandinn Donald Trump lét þau ummæli falla í dag að innflytjendur kæmu með slæm gen inn í Bandaríkin. Hefur Hvíta húsið brugðist við ummælunum og kallað þau ógeðsleg.
Trump lét ummælin falla í viðtali í dag. Var fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn að gagnrýna forsetaframbjóðanda demókrata, Kamölu Harris, þegar hann leiddi tal sitt að tölum stjórnvalda þar í landi sem, að hans sögn, sýndu að þúsundir innflytjenda væru ekki í haldi ríkisyfirvalda þrátt fyrir að hafa framið morð.
Sagði hann í viðtalinu að það að vera morðingi væri sökum gena viðkomandi og að Bandaríkin væru með mikið af slæmum genum í landinu þessa stundina.
„Þessi tegund af orðræðu er hatursfull, ógeðsleg, óviðeigandi og á ekki heima í okkar landi,“ sagði fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Karine Jean-Pierre, við blaðamenn í kjölfar ummælanna.
Sagði hún ummælin heyra undir sömu yfirlýsingar Trumps um að innflytjendur eitri blóð Bandaríkjanna en þau ummæli lét hann falla í desember í fyrra.
„Við ætlum að halda áfram að hafna kröftuglega þessari svívirðilegu, truflandi, hatursfullu orðræðu,“ sagði Jean-Pierre enn fremur.
Að sögn miðilsins AFP var Trump að misskilja tölur sem gefnar voru út í september af bandarísku innflytjenda- og tollgæslunni (Immigration and Customs Enforcement) en tölurnar ná yfir tímabil sem spannar áratugi, þar á meðal þegar Trump var forseti landsins, og taka ekki til fólks sem er fangelsað á öðrum stöðum utan gæslunnar.