Táningur með handsprengju grunaður um manndráp

Táningur hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn.
Táningur hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn. AFP

Maður á sextugsaldri var skotinn til bana í íbúð sinni í borginni Malmö í Svíþjóð í nótt. Táningur hefur verið handtekinn en hann var einnig með handsprengju á sér. Ekki er talið að um viljaverk hafi verið að ræða.

Aftonbladet greinir frá.

Lögreglan fékk tilkynningu í nótt um að karlmaður væri særður í íbúð í Malmö. Byssumaðurinn skaut inn í íbúðina í gegnum gluggakistu og hæfði manninn, sem lést af sárum sínum.

Var með handsprengju á sér

Lögreglan handtók mann skömmu eftir skotárásina, grunaðan um manndráp, en vildi ekki greina frá aldri hans. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er um að ræða unglingspilt eldri en 15 ára sem hefur verið handtekinn.

Samkvæmt upplýsingum TV4-fréttamiðilsins er pilturinn 16 ára gamall og hafði hann flúið heimili fyrir ungmenni í vanda og var með handsprengju á sér þegar hann var handtekinn.

Þá kemur einnig fram í frétt TV4 að lögreglan telji að manndrápið hafi ekki verið viljaverk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert