„Vipps-ræningi“ hótaði 20 börnum

Sextán ára piltur framdi fjölda rána og ránstilrauna þar sem …
Sextán ára piltur framdi fjölda rána og ránstilrauna þar sem börn voru fórnarlömbin. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Sextán ára gamall piltur sætir ákæru fyrir Héraðsdómi Óslóar fyrir sjö svokölluð „Vipps-rán“ og fleiri tilraunir til þeirra þar í borginni en Vipps er millifærsluapp á borð við Aur og Kass á Íslandi.

Voru fórnarlömb unglingsins öll undir lögaldri og framdi ákærði brot sín í vor með þeim hætti að neyða börnin,  ýmist með hníf á lofti eða hótunum um ofbeldi, til að opna appið í símum sínum til að kanna stöðuna á bankareikningum þeirra. Neyddi hann brotaþola í framhaldinu til að taka út reiðufé í hraðbönkum eða verslunum og afhenda sér.

Gæsluvarðhald í fjórar vikur

Fjöldi slíkra rána var framinn á Óslóarsvæðinu í maí og júní og var grunaði í þessu tiltekna máli handtekinn í júní og úrskurðaður í gæsluvarðhald í fjórar vikur og er nú ákærður fyrir ofbeldi, níu rán og ránstilraunir, þar af sex rán sem framin voru einn og sama daginn og var ránsfengurinn frá 50 norskum krónum upp í 2.000 en hærri upphæðin nemur 25.500 íslenskum krónum.

Voru fórnarlömb ákærða í málinu alls tuttugu á aldrinum 12 til 17 ára og var hann jafnan í slagtogi með samverkamönnum sem þó hafa ekki verið ákærðir vegna ungs aldurs þeirra, en hafa hins vegar stöðu grunaðra og hafa barnaverndaryfirvöld tekið við málum þeirra.

Að sögn Ceciliu Dinardi, verjanda ákærða. sem ræðir við norska ríkisútvarpið NRK, játar hann sök í málinu og kveðst vilja axla þá ábyrgð sem honum beri.

NRK
VG
Avisa Oslo

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert