Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, var krafin svara um ýmis innanlands- og utanríkismál í fréttaskýringarþættinum 60 mínútur í viðtali sem birtist í gær. Sagði hún að mótframbjóðandi sinn talaði fyrir uppgjöf í stríði Rússlands og Úkraínu.
Neitaði hún að svara því hvort að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, væri „sterkur bandamaður“ og þá var þjarmað að henni vegna stöðunnar á landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó.
Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, var einnig boðið í 60 mínútur. Hann þáði boðið en skipti síðar um skoðun og afþakkaði.
Breska ríkisútvarpið (BBC) greinir frá.
Harris neitaði að taka undir þegar blaðamaðurinn Bill Whitaker spurði hana hvort Netanjahú væri „sterkur bandamaður“ Bandaríkjanna, en ágreiningur hefur komið upp á milli Biden-stjórnarinnar og stjórnvalda í Ísrael.
„Vinnan sem við gerum diplómatískt með leiðtogum Ísraels er sífelld vinna sem snýr að því að skýra prinsippin okkar,“ sagði Harris.
„Ég held, með fullri virðingu, að betri spurningin sé sú hvort mikilvægt bandalag sé á milli bandarísku þjóðarinnar og ísraelsku þjóðarinnar,“ hélt hún áfram. „Og svarið við þeirri spurningu er já.“
Bill Whitaker spurði hvort að það hefðu verið mistök til að byrja með að létta á landamæratakmörkunum sem Donald Trump hafði sett á fót, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórn Bidens hefur nú í ár aftur þurft að setja á laggirnar sömu takmarkanir og tíðkuðust í stjórnartíð Trumps.
„Þetta er langvarandi vandamál og lausnirnar eru til staðar. Frá fyrsta degi höfum við bókstaflega verið að bjóða upp á lausnir,“ sagði hún og kenndi Trump um að þrýsta á repúblikana á þingi að hnekkja landamærafrumvarpi sem hefði aukið eftirlit á landamærunum.
Fréttamaðurinn svaraði: „Það sem ég var að spyrja að var, voru það mistök til að byrja með að leyfa þessu flóði að gerast?“
Harris svaraði því til að „stefnan sem við höfum verið að leggja til snýst um að leysa vandamál, ekki að ýta undir vandamál“. Hún sagði að hún og Biden hefðu „minnkað straum ólöglegra innflytjenda um helming“.
Í stjórnartíð Bidens hefur verið sögulega mikill fjöldi ólöglegra innflytjenda sem hefur komið til Bandaríkjanna.
Á þessu ári gaf Biden nokkrar forsetatilskipanir til að takmarka fjöldann og síðan þá hefur dregið úr fjölda ólöglegra sem fara yfir landamærin samanborið við fyrri ár.
Harris sagðist ekki ætla að setjast niður með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, nema Úkraína væri einnig með sæti við borðið.
Hún skaut á Trump og sagði: „Hann talar um að hann geti bundið enda á þetta á fyrsta degi. Veistu hvað það er? Þetta snýst um uppgjöf,“ sagði hún.
Hún sagði að „Pútín væri í Kænugarði [höfuðborg Úkraínu] núna“ ef Trump væri enn forseti.