Ræddi leynilega við Pútín og sendi honum veirupróf

„Ég vil ekki að þú segir neinum því að fólk …
„Ég vil ekki að þú segir neinum því að fólk mun reiðast þér, ekki mér,“ mun forsetinn rússneski hafa sagt. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur í leyni talað við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að minnsta kosti sjö sinnum frá því hann lét af embættinu árið 2021.

Þetta gerði hann á sama tíma og hann þrýsti á þingmenn repúblikana að koma í veg fyrir hernaðaraðstoð við Úkraínu til að verjast rússnesku innrásarliði.

Frá þessu er greint í nýrri bók rannsóknarblaðamannsins Bob Woodward, sem þekktastur er fyrir afhjúpun sína á Watergate-málinu á áttunda áratugnum.

Í bókinni, sem ber titilinn Stríð og gefa á út í næstu viku, er því lýst hvernig forsetinn fyrrverandi sagði aðstoðarmanni sínum að yfirgefa skrifstofuna svo hann gæti talað símleiðis við Pútín, snemma á þessu ári.

Sendi próf til að kanna smit

Viðkomandi aðstoðarmaður segir þá tvo gætu hafa ræðst við um sex sinnum frá því Trump yfirgaf Hvíta húsið, að því er New York Times hefur upp úr bókinni.

Þá segir þar einnig frá því að Trump, sem sitjandi forseti í faraldri kórónuveirunnar árið 2020, sendi Pútín leynilega próf til að kanna smit af Covid-19, sem þá voru sjaldgæf.

Fram hefur komið að Pútín hafi verið sérstaklega smithræddur á þessum tíma. Hann mun hafa ýtt á það við Trump að opinbera ekki þessa sendingu þar sem það gæti skaðað hann á pólitíska sviðinu.

„Ég vil ekki að þú segir neinum því að fólk mun reiðast þér, ekki mér,“ mun forsetinn rússneski hafa sagt.

Spurningar um samband Trumps og Pútíns

Þessar afhjúpanir þykja vestanhafs vekja nýjar spurningar um samband Trumps og Pútíns, aðeins nokkrum vikum áður en Bandaríkjamenn segja til um hvort þeir vilji Trump aftur á forsetastól.

Í yfirlýsingu frá framboði Trumps er höfundur bókarinnar, Bob Woodward, sagður „algjört skítseiði“. Hann sé „hægur, þunglamalegur, óhæfur og almennt leiðinleg manneskja með engan persónuleika“.

Ekkert er þó minnst á það sem greint er frá í bókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert