Lögreglan í Ósló í Noregi er með mikinn viðbúnað við verslunarmiðstöðina Arkaden við Karls Jóhannsgötu eftir að maður framdi þar rán í morgun með hníf á lofti. Eftir því sem dagblaðið VG greinir frá rændi maðurinn verslun eftir að hafa haft í hótunum við starfsfólk þar, en norska ríkisútvarpið NRK segir að viðskiptavinur í verslunarmiðstöðinni hafi verið rændur.
Eftir því sem Bjarne Pedersen, stjórnandi aðgerða lögreglu á vettvangi, segir VG frá er enginn særður eftir ránið og enginn handtekinn heldur enn sem komið er.
„Við metum stöðuna svo að fólk á svæðinu sé ekki í hættu, grunaði hefur yfirgefið vettvang og við höfum vísbendingar sem við fylgjum,“ segir Pedersen.
Lögreglunni barst tilkynning um atburðinn klukkan 10:10 í morgun að norskum tíma, 08:10 að íslenskum, og hélt þegar í útkall á fjölda bifreiða. Hún lýsir nú eftir ungum pilti, dökkum að yfirbragði í grárri hettupeysu, svörtum skó og svörtum jakka, líklega með tvo innkaupapoka merkta raffangaversluninni Elkjøp.