Rýmingar fyrirskipaðar: „Þá munt þú deyja“

Milton er í Mexíkóflóa og á leiðinni að Tampa.
Milton er í Mexíkóflóa og á leiðinni að Tampa. AFP/NOAA

Því er spáð að fellibylurinn Milton muni ganga á land í Flórída í Bandaríkjunum af miklum krafti á morgun. Jane Castor, borgarstjóri Tampa, var ómyrk í máli er hún ræddi hætturnar sem þessum fellibyl munu fylgja á ákveðnum svæðum.

„Ég get sagt þetta án þess að vera ýkja neitt. Ef þú velur að dvelja á einhverju af þessum rýmingarsvæðum, þá munt þú deyja,“ sagði hún í samtali við CNN.

Gert er ráð fyrir því að fellibylurinn gangi á land annað kvöld og verði þá þriðja stigs fellibylur. Í Tampa búa um þrjár milljónir manna og hefur mörgum verið skipað að yfirgefa heimili sín.

Biden hættir við ferðalag

Joe Biden Bandaríkjaforseti er hættur við fyrirhugaða heimsókn til Þýskalands og Angóla til að hafa umsjón með undirbúningi fyrir Milton.

Veðurstofan sagði að Milton gæti orðið versta óveður sem gengið hefur yfir Tampa-svæðið í meira en 100 ár.

„Notið daginn í dag til að ljúka við og framkvæma áætlunina sem á að vernda ykkur og fjölskyldu ykkar,“ sagði Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, við íbúa í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert