Hisbollah skutu á Ísrael: Leiðtogar ræða saman

Biden og Netanjahú.
Biden og Netanjahú. Samsett mynd/AFP

Hisbollah-samtökin skutu sprengikúlum á Ísrael í morgun og segjast þau jafnframt tvívegis hafa stöðvað tilraunir hermanna Ísraels til að komast yfir landamærin.

Ísraelar sögðu loftvarnir þeirra hafa skotið niður tvær sprengikúlur sem var skotið frá Líbanon. Loftvarnarflautur fóru af stað í kringum Caesarea, suður af borginni Haifa.

Í gær sögðust Hisbollah hafa skotið 180 sprengikúlum í átt að Ísrael, aðallega á svæðinu við Haifa. Á sama tíma hafa Ísraelar sett aukinn kraft í landhernað sinn meðfram suðurströnd Líbanons.

Ísraelska borgin Haifa er í norðurhluta landsins.
Ísraelska borgin Haifa er í norðurhluta landsins. AFP/Ahmad Gharabli

Netanjahú og Biden ræða saman

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Joe Biden Bandaríkjaforseti ætla að ræða saman í dag um viðbrögð Ísraela við flugskeytaárás Írans, sem styðja við bakið á Hisbollah, á Ísrael í síðustu viku.

Netanjahú varaði í gær við því að sama eyðilegging gæti orðið í Líbanon og á Gasasvæðinu. Hvatti hann íbúa Líbanons til að losa sig við Hisbollah-samtökin til að hægt væri að ljúka stríðinu.

Reykur í borginni Tyre í suðurhluta Líbanons eftir loftárás Ísraela …
Reykur í borginni Tyre í suðurhluta Líbanons eftir loftárás Ísraela í síðustu viku. AFP/Kawnat Hjau
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert