„Hvers vegna óttaðist þú um líf þitt?“

Myndin sem tekin var á útsýnispalli Ekeberg-veitingahússins í Austur-Ósló. Einn …
Myndin sem tekin var á útsýnispalli Ekeberg-veitingahússins í Austur-Ósló. Einn hinna ákærðu hefur játað að vera á myndinni. Skjáskot/NRK

Þrír sænskir ríkisborgarar og einn norskur sæta nú ákæru í Noregi fyrir rán, hótanir, hylmingu og fíkniefnabrot. Voru þeir handteknir í höfuðborginni Ósló í fyrrahaust og hafa einhverjir ákærðu hlotið dóma í Svíþjóð áður, fyrir peningaþvott og fíkniefnasmygl.

Telur norsk lögregla ákærðu tengjast sænska glæpagenginu Shottaz sem meðal annars hefur troðið miklar illsakir við klíkuna Foxtrot sem mbl.is hefur ítrekað fjallað um og lýtur stjórn hins íraska Rawa Majid, öðru nafni „kúrdíska refsins“.

Alls sitja sjö manns, sem talið er að hafi tengsl við Shottaz, í haldi norskrar lögreglu um þessar mundir en þeir fjórir sem ákærðir eru neita allir þeim sökum sem þeir eru bornir. Meðal gagna málsins er ljósmynd af fimm mönnum á svölum Ekeberg-veitingahússins í Austur-Ósló, þar af tveimur grímuklæddum, og hefur einn ákærðu játað að vera á myndinni.

Allir á myndinni eru taldir áhrifamenn innan klíkunnar.

Kostað tug mannslífa

Annar neitar að vera á myndinni en sá kveðst – í kjölfar spurningar Johannesar Hafsahl saksóknara – hafa komið yfir til Noregs vegna þess hve ískyggileg vargöldin í Svíþjóð væri orðin en um hana hefur mbl.is einnig fjallað ítarlega síðasta árið og meðal annars rætt við dr. Daða Þór Vilhjálmsson, yfirlækni í Malmö, um skotsár sem hann og samstarfsfólk hans hafa verið að sinna á sjúkrahúsinu þar.

Væringar Shottaz-klíkunnar við andstæðinga sína, sem oftar en ekki snúast um yfirráðasvæði á fíkniefnamarkaði, hafa kostað að minnsta kosti tug ungra manna lífið síðustu árin og eru mörg manndrápsmálanna enn óleyst.

Sem fyrr segir spurði saksóknari þann ákærðu, sem ekki kveðst vera á myndinni, hvers vegna hann hefði komið til Noregs og fékk þau svör að það væri vegna stríðsins blóðuga milli gengjanna í Svíþjóð.

Sænska lögreglan telur þessa fimm menn innstu koppa í búri …
Sænska lögreglan telur þessa fimm menn innstu koppa í búri Shottaz-klíkunnar en tveir þeirra voru handteknir í Ósló í fyrrahaust. Ljósmynd/Sænska lögreglan

„Hvers vegna snertir það þig?“ spurði Hafsahl saksóknari þá.

„Fórnarlömbin eru orðin allt of mörg. Hver sem er getur látið lífið,“ svarar maðurinn og játar í framhaldinu spurningu um að hann hafi verið tekinn að óttast um líf sitt handan sænsku landamæranna.

„Svíþjóð er öruggt land fyrir flesta. Hvers vegna óttaðist þú um líf þitt? Í hvaða félagsskap varstu þar?

„Í [norska ríkisútvarpinu] NRK, [og sænsku] Aftonbladet og Expressen er Stokkhólmi lýst sem stríðssvæði. Ég veit ekki hvernig þú getur lýst því sem öruggu,“ svarar ákærði.

Forðast ákveðna veitingastaði

Vettvangur átaka Shottaz hefur einkum verið úthverfið Rinkeby í Vestur-Stokkhólmi og handtók sænsk lögregla fimmtán manns í maí sem hún vill meina að tengja megi ófriðnum. Hefur NRK aðgang að rannsóknargögnum sænsku lögreglunnar þar sem fram kemur að íbúar í Rinkeby forðist ákveðna veitingastaði og verslanir auk þess að fara lengri leiðir en þeim er þörf með almenningssamgöngum til að eiga síður á hættu að verða á vegi vígamanna Shottaz.

Mynd af einum hinna ákærðu með skotvopn á hótelherbergi í …
Mynd af einum hinna ákærðu með skotvopn á hótelherbergi í Ósló. Ljósmynd/Norska lögreglan

Eftir því sem fram kom í saksóknarræðu Hafsahls saksóknara hófst rannsókn norsku lögreglunnar á þeim sem nú eru ákærðir þegar sást til sænsks ríkisborgara – ekki eins ákærðu – á götu í Ósló en sá var þá eftirlýstur á alþjóðavettvangi fyrir manndrápstilraun í Svíþjóð.

Var hann handtekinn og framseldur sænskum yfirvöldum til meðferðar máls hans þar í landi.

Meðal annarra gagna málsins eru myndir af töluverðu magni af meintu hassi og marijúana sem fundust í síma eins ákærðu en hann hangir á því sem hundur á roði að ekki sé um ósvikin efni að ræða, þau séu aðeins leikmunir fyrir tónlistarmyndband sem þeir félagar hafi unnið að í Ósló. Það sama gildi um reiðufé sem sjá má á annarri mynd.

Lögreglan hafi ákveðið sig snemma

Studdu ákærðu framburð sinn við lögregluyfirheyrslur með rapptextum úr símum eins þeirra sem NRK birtir þó ekki í umfjöllun sinni en verjandi símaeigandans, Inam Ghous Ali, kveður skjólstæðing sinn ekki játa á sig tengsl við sænsk glæpagengi. „Hann hefur lagt á það mikla áherslu að hann tilheyrir engum slíkum hópi og að tilgangur hans með að koma til Noregs hafi ekki verið að fremja afbrot,“ segir Ali við NRK.

Meint kannabisefni sem einn ákærðu heldur fram að séu gerviefni …
Meint kannabisefni sem einn ákærðu heldur fram að séu gerviefni og aðeins leikmunir í tónlistarmyndbandi sem ætlunin hafi verið að taka upp í Ósló. Lagði hann fram rapptexta úr síma sínum máli sínu til stuðnings. Ljósmynd/Norska lögreglan

Telur verjandinn vandann í málinu snúast um að lögreglan hafi snemma á rannsóknarstigi sagt að málið snerist um glæpagengi og öll rannsókn málsins beri keim af þeirri ákvörðun lögreglu.

Einn hinna verjendanna, Daniel Storrvik, heldur því einnig fram að peningarnir og fíkniefnin meintu á myndunum hafi verið leikmunir vegna framleiðslu tónlistarmyndbands í norsku höfuðborginni og segir skjólstæðing sinn starfa sem umboðsmann sænskra tónlistarmanna.

„Þeir útveguðu sér kannabisefni sem ekki innihéldu virka efnið THC, það var það sem honum var tjáð. Hafi efnin verið ósvikin hafði hann enga vitneskju um það,“ sagði Storrvik í ávarpi sínu fyrir Héraðsdómi Óslóar.

NRK
NRK-II (frá handtökunni á sínum tíma)
NRK-III (ræddu um leigumorð í Noregi)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka