„Fólk sem hefur búið hér alla ævi hefur ekki séð aðrar eins varúðarráðstafanir. Þetta er í fyrsta sinn sem fólk er að upplifa alvöru hræðslu út af fellibyl,“ segir Friðrika Arnardóttir, íbúi í Lake Nona í Flórída, í samtali við mbl.is.
Fellibylurinn Milton mun ganga á land við vesturströnd Flórída í kvöld eða nótt. Hann er flokkaður sem fimmta stigs fellibylur og er búist við að hann verði sá öflugasti sem hefur gengið yfir svæðið í heila öld.
Milljónum manna á vesturströndinni hefur verið gert að yfirgefa heimili sín.
Friðrika hefur búið í Flórída í tvö ár ásamt kærasta sínum Degi Dan Þórhallssyni sem spilar fótbolta með Orlando City. Þau hafa aldrei upplifað eins stóran fellibyl og nú er fram undan.
Lake Nona er ekki skilgreint hættusvæði og er fólki á vesturströnd Flórída ráðlagt að leita skjóls í grennd við Lake Nono.
Friðrika segir að þrátt fyrir það séu íbúar á svæðinu stressaðir fyrir því sem koma skal.
Gert er ráð fyrir að fellibylurinn verði kominn niður í þriðja stigs fellibyl þegar hann nær Lake Nona.
Fólki á svæðinu hefur verið ráðlagt að fylla á vatnsbirgðir og að eiga nóg af mat. Friðrika segir að fljótlega eftir að skilaboðin um að eiga nóg af vatnsbirgðum hafi verið gefin út hafi vatn í flestum verslunum klárast.
„Við þurftum til dæmis að fara í þrjár búðir til þess að finna vatn.“
Aðspurð segir hún að þau hafi fyllt á matarbirgðir, keypt nóg af vatni og útbúið sig vasaljósum en búist er við rafmagnsleysi á svæðinu.