Íslendingur í Flórída: „Fólk er mjög stressað“

Gísli ásamt varaaflsstöðinni.
Gísli ásamt varaaflsstöðinni. Ljósmynd/Gísli

Íslendingur búsettur í Auburndale í Flórída hefur safnað birgðum til nokkurra daga og keypt sér varaaflsstöð til að undirbúa sig fyrir fimmta stigs fellibylinn Milton sem gert er ráð fyrir að gangi á land í kvöld eða í nótt.

Gísli Gunnarsson er verkfræðingur hjá JBT og er búsettur á stað þar sem gert er ráð fyrir að fellibylurinn fari yfir. Hann undirbýr sig núna fyrir meiriháttar tjón eins og aðrir sem verða á vegi fellibylsins.

Hann er ekki á flóðasvæði eins og í Tampa en þó má gera ráð fyrir mikilli vætu. Þá er hætta á því að aðskotahlutir taki á loft og skemmi hús, bíla og annað.

„Fólk er mjög stressað,“ segir hann aðspurður.

Þarna má sjá hvar búist er við því að Milton …
Þarna má sjá hvar búist er við því að Milton fari yfir Flórída. Blái punkturinn er staðsetningin á heimili Gísla. Skjáskot

Ætlar að fylla baðkarið af vatni

„Ég er að leigja hérna af vinkonu minni sem er uppalin í Flórída og hefur farið í gegnum öll stigin [Fimm stig til að mæla stærð fellibylja] og hún er að fríka út. Hún segir að ef þetta verður fimmta stigs fellibylur þá verði þetta hrikalegt. Hún sagði að þegar það hefði verið fjögurra eða fimmta stigs þá sé eins og allt sé að farast. Það sé alveg skelfileg tilfinning því maður verði svo bjargarlaus.“

Milton er eins og fyrr segir fimmta stigs fellibylur og gert er ráð fyrir því að hann verði fjögurra stigs fellibylur þegar hann gengur á land.

„Við erum tiltölulega nýflutt í þetta hús þannig við erum svo sem ekki búin að vera nógu vel undirbúin, við erum ekki búin að setja hlera utan á glugga eða slíkt. En við höfum keypt töluvert af mat og vatni og svo verður baðkarið fyllt af vatni og allar fötur sem maður finnur,“ segir hann.

Milton nálgast Tampa.
Milton nálgast Tampa. AFP/Bryan R. Smith

Dagarnir á eftir gætu orðið verstir 

Fólk þarf að undirbúa sig vel því að það gæti orðið vatnslaust, rafmagnslaust og símasambandslaust í nokkra daga í kjölfar fellibylsins.

Hann segir að fellibylurinn verði ekki endilega það versta heldur frekar það sem komi í kjölfarið ef fellibylurinn verður kraftmikill. Þá verður mögulega illa fært, erfitt að sækja þjónustu og sumir gætu reynt að stela frá öðrum til að verða sér út um vistir.

Hann keypti sér 10 kílóvatta varaaflsstöð í gær og í dag fer hann og nær í olíu fyrir stöðina. Þrátt fyrir að margir séu að verða sér út um birgðir þá hefur ekki orðið vöruskortur. Hann hrósar sérstaklega verslununum Publix og Costco.

Hann seg­ir að margt fólk í hverf­inu sé farið annað til þess að forðast ástandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert