Málverk seldist á 1,8 milljarða króna

Málverkið Ria, Naked Portrait eftir Lucian Freud seldist á uppboði …
Málverkið Ria, Naked Portrait eftir Lucian Freud seldist á uppboði í Lundúnum í dag fyrir tíu milljónir punda. AFP

Málverk af nakinni konu eftir breska listmálarann Lucien Freud seldist á uppboði hjá Christie's í Lundúnum á tíu milljónir punda, jafnvirði um 1,8 milljarða króna. Búist hafði verið við hærra boði í verkið en það var metið á 10-15 milljónir punda. 

Málverkið nefnist Ria, Naked Portrait og var málað á árunum 2006 til 2007. Það hefur verið í einkaeigu síðan.

Málverk eftir Freud, sem lést árið 2011, áttatíu og átta ára að aldri, hafa vakið vaxandi áhuga meðal listaverkasafnara og verðmæti þeirra hefur aukist hratt.

16 mánaða verk

Það tók Freud, sem er álitinn einn fremsti portrettmálari Breta, 16 mánuði að mála verkið. Fyrirsætan, Ria Kirby, sem starfaði hjá Victoria & Albert-safninu í Lundúnum, sat eða raunar lá fyrir nánast á hverjum degi í allt að fimm klukkutíma á dag, alls um 2.400 klukkustundir.

Á heimasíðu Christie's er haft eftir Kirby að þetta hafi verið skemmtilegur tími og hún hafi fljótlega vanist því að sitja fyrir hjá málaranum, sem þá var 83 ára. „Þetta var mjög afslappað. Þetta var staður … þar sem enginn hringdi í mig eða ónáðaði mig. Það eina sem ég þurfti að gera var að liggja kyrr.“

Þar segir einnig að Freud hafi talað vel um Kirby og dáðst að því hvað hún tók fyrirsætustarfið alvarlega. Hún hafi ekki aðeins mætt í vinnustofu hans um leið og vinnudegi hennar á safninu lauk heldur hætti hún við að fara í frí til Grikklands til að trufla ekki taktinn í vinnuferlinu.

Þrír réttir með víni og búðingi

Á hverju kvöldi snæddu þau Kirby og Freud kvöldverð á öðru af tveimur uppáhaldsveitingahúsum Freuds í Lundúnum. „Ég plægði gegnum þrjá rétti með víni og búðingi,“ er haft eftir Kirby á heimasíðu Christie's. Listamaðurinn snerti hins vegar varla matinn vegna þess að hann var að vinna og eftir að hann hafði greitt fyrir máltíðina héldu þau aftur á vinnustofuna.

Freud, sem var sonarsonur þýska sálgreinandans Sigmunds Freuds, var þekktur fyrir að fegra ekki þá sem sátu fyrir á myndum hans, þar á meðal sig sjálfan en hann málaði margar sjálfsmyndir.

Þessi „heiðarleiki“ hefur leitt til þess að málverk eftir Freud eru nú ein þau eftirsóttustu á listaverkamarkaði.

Árið 2022 seldist málverkið Large Interior, W11 eftir Freud fyrir 86 milljónir dala, jafnvirði 11,6 milljarða króna, og árið 2015 seldist önnur nektarmynd, Benefits Supervisor Resting, fyrir rúmlega 56 milljónir dala, nærri 7,6 milljarða króna á núvirði.

Annað verk eftir Freud, andlitsmynd af konu, seldist á uppboðinu í dag á 2,8 milljónir punda, jafnvirði um 500 milljóna króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert