„Það er hnútur í maganum“

Pétur Konráð Hlöðversson og kona hans Sigríður Þórðardóttir eru í …
Pétur Konráð Hlöðversson og kona hans Sigríður Þórðardóttir eru í Flórída ásamt sonum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Íslensk fjölskylda sem stödd er í smábænum Dunedin, skammt frá Clearwater við Tampa-flóa á Flórída, er nú í óða önn að búa sig undir fellibylinn Milton sem gert er ráð fyrir að gangi á land í kvöld eða nótt.

Milton er flokkaður sem fimmta stigs fellibylur og búist er við að hann verði sá öflugasti sem gengið hefur yfir svæðið í heila öld.

Pétur Konráð Hlöðversson viðurkennir að hann sé með smá hnút í maganum þó fjölskyldan hafi undirbúið sig vel, en hann er nýkominn út ásamt konu sinni og tveimur sonum.

Þau hafa áður lent í fellibyl og eru vön látum í veðri á svæðinu. Það kom því ekki til greina að fara strax aftur heim til Íslands, þrátt fyrir veðurspána.

Alveg við rýmingarsvæðið

Millj­ón­um manna hef­ur verið skipað að yf­ir­gefa heim­ili sín áður en felli­byl­ur­inn skellur á vesturströnd Flórída. Hús fjölskyldunnar er ekki á rýmingarsvæði, en þó skammt frá, eða aðeins fimm húsum.

Það sem skiptir máli hvað rýminguna varðar er að þeirra hús stendur tveimur metrum hærra en húsin sem þarf að rýma. Ekki er því talin hætta á að það flæði inn í þeirra hús, að sögn Péturs.

„En það verður rok, mikil rigning og læti hérna í nótt. Nágranni minn er búinn að taka niður girðinguna hjá sér sem fór af stað í síðasta fellibyl, þannig hún á ekki að fjúka á okkur núna, eins og þegar Helene gekk yfir um daginn,“ segir Pétur, en aðeins tvær vikur eru síðan sá fellibylur gekk yfir svæðið.

Milljónum manna hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín í …
Milljónum manna hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín í Flórída. AFP/Joe Raedle

Mest hætta á að eitthvað fjúki á húsið

Pétur og fjölskylda hafa fjarlægt garðhúsgögn og fleira lauslegt sem mögulega getur fokið í kringum þeirra hús, og komið því fyrir innandyra. Þá hafa þau sett hlera fyrir alla glugga.

„Mesta hættan fyrir okkur er að hérna rétt hjá eru enn heilu búslóðirnar fyrir utan húsin sem lentu í Helene. Það má búast við að það fari allt af stað í rokinu.“

Pétur telur þau nokkuð vel undirbúin fyrir óveðrið og með á hreinu hvað þau ætla að gera á meðan fellibylurinn gengur yfir.

„Við finnum út hvaða herbergi er öruggast í húsinu og höfum allar hurðar lokaðar. Við erum búin að sanka að okkur vatni, mat og rafhlöðum í vasaljósin og við keyptum rafal fyrir síðasta fellibyl sem við eigum enn þá. Þegar að því kemur þá getum við keyrt lítið kælitæki hérna og ísskápinn.“

Fólk býr sig undir það versta þegar Milton gengur á …
Fólk býr sig undir það versta þegar Milton gengur á land. AFP/ Spencer Platt/

Húsið hlaðið og því öruggara

Húsið sem fjölskyldan á er hlaðið og því öruggara en mörg timburhúsin í nágrenninu, að sögn Péturs. „Það er misjafnt með grannana, hvað þeir ætla að gera. Nágranninn beint á móti, húsið hans stendur einum metra lægra en okkar, hann er flúinn, en nágrannarnir við hliðina á bíða átekta.“

Aðspurður hvort þau séu ekki hrædd, segir hann: „Jú, það er hnútur í maganum. Það er varla hægt annað, en maður verður bara að taka því sem kemur. Við höfum verið hérna áður í látum og djöfulgangi og það er alls ekki þægilegt.“

Hann segir það þó ekki hafa hvarflað að þeim að fara heim þegar fréttir af yfirvofandi fellibyl fóru að berast, enda nýkomin út og áætluð heimför ekki fyrr en 1. nóvember.

AFP/Giorgio Viera

Bindur vonir við að dragi úr styrknum

Pétur bindur vonir við að eitthvað dragi úr styrk fellibylsins þegar hann gengur á land og að hann verði kannski ekki nema þriðja stigs fellibylur þegar hann fer yfir svæðið.

„Frænka konunnar býr hérna rétt hjá okkur og hún er á rýmingarsvæði vegna þess hve húsið hennar stendur lágt, en hún segist oft hafa farið í gegnum þriðja stigs fellibylji og það eigi að vera í lagi fyrir okkur. Við erum að búast við því að hann verði um þrír þegar hann kemur hingað. Svo kemur þetta bara í ljós, þetta fer einhvern veginn.“

Bein útsending frá Flórída:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert