„Þetta snýst ekki um þig, Kamala“

Harris og DeSantis hafa skotið á hvort annað.
Harris og DeSantis hafa skotið á hvort annað. AFP/Chandan Khanna

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata, og Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, skutu á hvort annað á mánudag í aðdraganda fellibylsins Milton sem búist er við að muni valda miklu tjóni í ríkinu.

Fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því á mánudag að DeSantis hefði ekki svarað símtölum frá Harris og var hún spurð um málið.

Harris og DeSantis saka hvort annað um að reyna fella pólitískar keilur á sama tíma og Joe Biden Bandaríkjaforseti segir DeSantis standa sig frábærlega.

Segir DeSantis sjálfselskan

„Fólk þarf nauðsynlega á stuðningi að halda núna og að spila pólitíska leiki á þessari stundu, í þessu neyðarástandi – þetta er hápunktur neyðarástands – er algjörlega óábyrgt og sjálfselskt. Þetta snýst um pólitíska leiki í stað þess að sinna starfinu sem þú sórst eið til að gera, sem er að setja fólkið fyrst,“ sagði Harris við blaðamenn.

Ron DeSantis svaraði þessu í gær í viðtali og sagði að Harris væri sú sem væri að spila pólitíska leiki. 

„Þetta snýst ekki um þig, Kamala, þetta snýst um fólkið í Flórída,“ sagði hann í viðtali á Fox.

Segir hana hringja vegna kosningabaráttunnar

„Ég hef unnið við þessa fellibyli bæði undir stjórn Trumps og Bidens. Hvorugur þeirra reyndi að gera sér pólitískan mat úr þeim,“ sagði DeSantis.

Flórída hefði glímt við marga fellibyli á síðustu árum en Harris hefði í þeim tilvikum aldrei hringt í hann. Núna, innan við mánuði fyrir forsetakosningar, væri hún allt í einu að láta að sér kveða.

„Hún [Harris] hefur aldrei hringt í neinn út af þeim stormum sem við höfum upplifað frá því að hún varð varaforseti þar til nú,“ sagði hann og bætti við:

„Við vitum að það er vegna stjórnmálanna. Við vitum að það er vegna kosningabaráttunnar.“

Sagði hann enn fremur að hann væri í virkum samskiptum við Joe Biden og al­manna­varna­stofn­un­ina FEMA.

Biden við Desantis: „Þú stendur þig frábærlega“

Biden sagðist hafa rætt við DeSantis á mánudagskvöld og gefið honum númerið sitt til að hafa samband við sig í Hvíta húsinu.

„Ríkisstjórinn í Flórída hefur verið samvinnuþýður. Hann hefur sagt að hann hafi fengið allt sem hann þarf,“ sagði Biden í svari við fyrirspurn fréttamanns og lýsti svo símtali sem hann átti við DeSantis.

„Ég sagði: „Nei, þú stendur þig frábærlega. Það er allt vel gert. Við þökkum þér fyrir það.“ Og ég bókstaflega gaf honum mitt persónulega símanúmer til að hringja í.“

The Hill

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert