„Íbúar Flórída eru flestir þaulvanir fellibyljum. Stjórnvöld eru líka alveg ótrúlega skipulögð. Ég hef aldrei séð annað eins skipulag og rýmingar byrjuðu fyrir einum og hálfum degi. En fólki er að sama skapi tilkynnt um það að ef þú yfirgefur ekki svæðið, þá segja þeir; þér verður ekkert bjargað ef allt er farið á versta veg. Fólk skilur því alveg alvarleika málsins.“
Þetta segir Frosti Jónsson, tónlistarmaður, tölfræðigúru og íbúi í Temple Terrace í Tampa í Flórída.
Eins og fram hefur komið er búist við því að fellibylurinn Milton, upp á allt að 5 að styrkleika, muni ríða yfir Flórída í nótt og er Tampa sagt það svæði sem kann að fara einna verst út úr honum.
Sjálfur segist Frosti búa nokkuð fjarri ströndinni en hann hefur búið í Tampa í nokkur ár. Til þessa hefur hann eingöngu upplifað hitabeltisstorma en ekki fellibyl eins og útlit er fyrir núna.
„Við erum í sjálfu sér búnir að undirbúa okkur eins og hægt er. Við höfum sett sandpoka á þá staði þar sem flætt getur inn, hlaða vasaljós og neyðarútvarp og birgja okkur af vatni. Svo bíður maður bara og vonar það besta,“ segir Frosti.
Tampa-svæðið hefur oft orðið fyrir barðinu á fellibyljum. Einna verst varð svæðið úti þegar fellibylurinn Charley olli miklu tjóni árið 2004.
Fyrir einungis tveimur vikum fór fellibylurinn Helene yfir norðvesturhluta Flórída. Sá fellibylur var upp á 4 að styrkleika. Enn er brak á víð og dreif um svæðið. Búist er við jafnvel enn meiri styrkleika nú.
„Strandlengjan fór mjög illa þá og ég þekki nokkra sem urðu fyrir miklu tjóni vegna flóða,“ segir Frosti.
Hann segist þó síður óttast flóð út frá staðsetningu heimilis síns.
„Hjá okkur snýst þetta að mestu um það hversu mikinn vind við fáum á okkur. Við stöndum aðeins hærra en svæðin í kringum okkur og erum því í minni flóðahættu. En Flórída stendur ekki hátt og við erum kannski fjórum metrum hærra en flóðasvæðin sem búið er að skilgreina.
Ef við setjum þetta í íslenskt samhengi þá erum við kannski í Breiðholti en rýmingarsvæðinu lýkur í miðbænum. Rýmingarsvæðið er því býsna nærri,“ segir Frosti.
Teljið þið einhvern möguleika á því að þið þurfið að yfirgefa heimilið?
„Já, já, við erum mjög meðvitaðir um að við gætum þurft að fara í eitthvað af þeim neyðarskýlum sem eru allt í kring. Það verður því alltaf hægt að leita þangað ef til þess kemur,“ segir Frosti.
„Það sem skipuleggjendur hafa verið að leggja áherslu á núna er að rýma svæði þar sem flóðahætta er mest og líka að rýna þau húsnæði sem eru ekki byggð til að þola svona veður. Svona eins og hjólhýsabyggðir og annað slíkt.“
Sjálfur býr hann í 60 ára gömlu húsi sem staðið hefur af sér veður síðustu 60 ára og hefur ekki miklar áhyggjur af því.