Að minnsta kosti 22 voru drepnir og 117 manns særðust miðsvæðis í Beirút, höfuðborg Líbanons, í loftárásum Ísraela í gærkvöldi.
Ísraelskir hermenn á jörðu niðri í Líbanon voru einnig sakaðir um að hafa skotið á höfuðstöðvar friðargæslu Sameinuðu þjóðanna þar sem tveir starfsmenn særðust.
Árásin á Beirút var sú þriðja sem er gerð miðsvæðis á borgina síðan Ísraelar settu aukinn kraft í árásir sínar í síðasta mánuði. Heilbrigðisráðuneyti Líbanons sagði 117 hafa særst í árásinni.
Ísraelar gagnrýndu Sameinuðu þjóðirnar harðlega í morgun eftir að niðurstöður rannsóknar stofnunarinnar voru birtar um að Ísrael væri vísvitandi að eyðileggja heilbrigðisstofnanir á Gasasvæðinu og misnota palestínska fanga.
Landið er að „fremja stríðsglæpi og glæpi gegn mannskyninu með linnulausum og vísvitandi árásum á starfsfólk í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstofnanir“, sagði í skýrslunni, sem var birt í gær.
Ísraelar vísa þessu á bug og segja niðurstöðurnar „svívirðilegar“.