22 látnir og 117 særðir eftir árás á Beirút

Fólk á gangi meðfram húsarústum í hverfinu Basta í Beirút …
Fólk á gangi meðfram húsarústum í hverfinu Basta í Beirút í morgun eftir loftárásir Ísraela. AFP

Að minnsta kosti 22 voru drepnir og 117 manns særðust miðsvæðis í Beirút, höfuðborg Líbanons, í loftárásum Ísraela í gærkvöldi.

Ísraelskir hermenn á jörðu niðri í Líbanon voru einnig sakaðir um að hafa skotið á höfuðstöðvar friðargæslu Sameinuðu þjóðanna þar sem tveir starfsmenn særðust.

Árásin á Beirút var sú þriðja sem er gerð miðsvæðis á borgina síðan Ísraelar settu aukinn kraft í árásir sínar í síðasta mánuði. Heilbrigðisráðuneyti Líbanons sagði 117 hafa særst í árásinni.

Konur bregðast við er þær horfa á húsarústir í Beirút …
Konur bregðast við er þær horfa á húsarústir í Beirút í morgun. AFP

„Svívirðilegar“ niðurstöður

Ísraelar gagnrýndu Sameinuðu þjóðirnar harðlega í morgun eftir að niðurstöður rannsóknar stofnunarinnar voru birtar um að Ísrael væri vísvitandi að eyðileggja heilbrigðisstofnanir á Gasasvæðinu og misnota palestínska fanga.

Maður heldur á barni er hann gengur fram hjá ónýtri …
Maður heldur á barni er hann gengur fram hjá ónýtri byggingu í flóttamannabúðunum Bureij á Gasasvæðinu á miðvikudag. AFP/Eyad Baba

Landið er að „fremja stríðsglæpi og glæpi gegn mannskyninu með linnulausum og vísvitandi árásum á starfsfólk í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstofnanir“, sagði í skýrslunni, sem var birt í gær.

Ísraelar vísa þessu á bug og segja niðurstöðurnar „svívirðilegar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert