Reiðubúnir að „verja fullveldi sitt“

Amir Saeid Iravani, fulltrúi Írans í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, á …
Amir Saeid Iravani, fulltrúi Írans í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, á fundi 2. október. AFP/Bryan R. Smith

Íranir segjast vera „fullkomlega reiðubúnir til að verja fullveldi sitt“ ef erkióvinur þeirra Ísrael gerir árásir í hefndarskyni á landið vegna flugskeytaárása Írans á Ísrael 1. október.

Íranir skutu flugskeytum á Ísrael til að hefna sín á drápum Ísraela á tveimur af nánustu samstarfsmönnum þeirra, Hamas-leiðtoganum Ismail Haniyeah og Hisbollah-leiðtoganum Hassan Nasrallah, ásamt írönskum hershöfðingja.

Mynd af Hassan Nasrallah í miðjum húsarústum í úthverfi Beirút …
Mynd af Hassan Nasrallah í miðjum húsarústum í úthverfi Beirút í gær. AFP

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, hét því fyrr í vikunni að svar þjóðarinnar yrði „banvænt, nákvæmt og óvænt“.

Í ræðu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær sagði fulltrúi Írans, Amir Seeid Iravani, að Íranir væru „fullkomlega tilbúnir til að verja fullveldi sitt og landsvæði gegn hvaða ofbeldi sem er þar sem beint er sjónum gegn því sem er mikilvægt landinu og öryggi þess”.

Ísraelskir hermenn á ferð skammt frá landamærum Ísraels og Líbanon …
Ísraelskir hermenn á ferð skammt frá landamærum Ísraels og Líbanon í gær. AFP/Jalaa Marey

Hann bætti því við að Íran vildi hvorki stríð né auka á ólgu á svæðinu en að landið áskildi sér rétt til sjálfsvarnar í samræmi við alþjóðalög.

Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Írans, sagði á svipuðum tíma í viðtali við Al Jazeera Arabic í gær að „við viljum ekki stríð“ en „við erum ekki hrædd við það og við verðum tilbúin í hvaða kringumstæður sem er“.

Abbas Araghchi.
Abbas Araghchi. AFP/Fadel Itani
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert