„Við misstum allt“

Heilu hverfin fóru á kaf eftir að Milton gekk yfir …
Heilu hverfin fóru á kaf eftir að Milton gekk yfir Flórídaskaga í vikunni. AFP

„Við misstum allt,“ segir Lidier Rodriguez sem er búsettur við Tampa-flóa á vesturströnd Flórída í Bandaríkjunum. „Við erum þó enn á lífi. Það er það eina sem við eigum.“

Í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar segir að Rodriguez, sem er 54 ára gamall og upphaflega frá Kúbu, hafi búið í Flórída í um tvo áratugi.

Hann og eiginkona hans, Sandra Escalona, segja frá því hvernig þau hafi neyðst til að flýja upp á aðra hæð fjölbýlishússins þegar flóð fór um götur hverfisins eftir að fellibylurinn Milton gekk þar yfir í vikunni. Þau voru búsett á jarðhæð hússins.

Björgunarsveitir komu þeim svo til aðstoðar sem og nágrönnum þeirra, en lögreglumenn og slökkviliðsmenn fóru á milli húsa í bátum. Enn liggur hverfið undir vatni.

Íbúar eru margir hverjir ráðvilltir eftir hamfarnirnar.
Íbúar eru margir hverjir ráðvilltir eftir hamfarnirnar. AFP

Íbúar enn í áfalli

Margir íbúar eru enn í áfalli og ráðvilltir eftir hamfarirnar. Margir hafa sést ganga um götur með poka þar sem aleiguna er að finna, og sumir með gæludýrin sín meðferðis.

Fram kemur í umfjöllun AFP að enginn hafi átt von á því að hverfið myndi algjörlega fara á kaf þar sem ekki barst skipun frá yfirvöldum um að það ætti að rýma svæðið áður en Milton gekk á land.

Þetta er annar fellibylurinn í röð sem veldur usla í ríkinu en í september var það fellibylurinn Helena sem gekk yfir Flórídaskagann. Þá slapp umrætt hverfi án nokkurrar eyðileggingar.

Alls létust 16 þegar Milton fór yfir ríkið á miðvikudag og hélt svo út á Atlantshaf.

Margir íbúar Flórída önduðu þó léttar eftir að verstu spár um tjón og dauðföll raungerðust ekki.

Þetta eru ekki bátar á siglingu heldur bifreiðar að aka …
Þetta eru ekki bátar á siglingu heldur bifreiðar að aka eftir umferðargötu í Flórída. AFP

Gerðist mjög hratt 

„Þetta gerðist allt ofboðslega hratt. Vatnið flæddi mjög snögglega inn af miklum krafti,“ segir Escalona í samtali við AFP.

„Við gripum einhver skjöl, hundinn og fórum. Nóttinni eyddum við fyrir utan dyrnar hjá nágranna okkar á efri hæðinni,“ segir hún.

Hjónin velta nú fyrir sér hvað þau eigi að gera og hvert þau eigi að fara. 

„Það er ekki auðvelt að halda að þú eigir allt en svo skyndilega áttu ekkert,“ segir Rodriguez.

„Við vitum ekki hvert við eigum að fara. Við höfum verið í þessu landi í tæp 20 ár og við eigum enga fjölskyldu. Þetta er hún, ég og hundurinn,“ bætti hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert