Fundu stígvél 100 árum eftir dularfullt hvarf

Fundurinn er sagður hafa mikla þýðingu og finnist meira af …
Fundurinn er sagður hafa mikla þýðingu og finnist meira af því sem Irvine hafði með sér á fjallið kann það að umturna sögu manna á Everest-fjalli. AFP/Purnima Shrestha

Eftir hundrað ár hefur leitin að göngugarpnum Andrew Comyn Irvine eða Sandy borið árangur. Síðasti fundur í tengslum við garpinn var árið 1933, en Sandy hvarf nærri toppi Everest-fjalls árið 1924 ásamt félaga sínum George Mallory.

Fjallgöngumenn á vegum National Geographic voru við tökur á heimildarmynd þegar þeir ráku augun í göngustígvél. Í göngustígvélinu var fótur og sokkur á fætinum með letruninni A.C. Irvine.

Fundurinn gæti varpað ljósi á hvort að Sandy og Mallory hafi í raun verið fyrstir manna á topp fjallsins. Edmund Hillary og Tenzing Norgay eru sagðir fyrstir manna til að ná toppi fjallsins árið 1953 eða 29 árum eftir tilraun Sandy og Mallory.

Hafði myndavél í fórum sínum

Ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til að hafa uppi á líki Irvines, en talið er að hann hafi haft í sínum fórum myndavél sem hafði að geyma óframkallaðar ljósmyndir. Margir hafa gert sér í hugarlund að ein myndanna sýni félagana á toppi fjallsins.

Fjölskylda Sandys hafði löngu gefið upp vonina um að lík hans myndi finnast en frænka hans, Julie Summers, var vægast sagt slegin þegar Jimmy Chin, einn fjallgöngumannanna, náði tali af henni til að segja henni frá fundinum. 

Summers, sem er 64 ára, skrifaði ævisögu Sandys árið 2001 og sagði í samtali við Chin sem birtist á National Geographic að hana grunaði að líkamsleifar frænda síns hefðu runnið niður fjallið í snjóflóði og orðið undir flóðinu. 

Búið er að taka sýni úr eftirlifandi fjölskyldu Sandys og verða þau borin saman við erfðaefni í fætinum sem fannst.

Minnir á fund Mallorys árið 1999

Summers kvaðst í samtali við BBC hafa alist upp við sögur af hinum ævintýragjarna ömmubróður sínum sem hvarf einungis 22 ára gamall og að á náttborði ömmu hennar hefði verið mynd af Sandy sem hún geymdi þar alla sína ævi.

Fundinn segir hún hafa minnt sig á árið 1999 þegar líkamsleifar Mallorys fundust. Á líkamsleifunum voru áverkar undan reipi sem gáfu til kynna að andlát hans hefði verið sökum falls af fjallinu.

Snjógleraugu hans með dökku gleri voru aftur á móti í vasa hans, sem gaf til kynna að fallið hefði átt sér stað síðdegis og þess vegna líkur á að þeir hafi verið á leið niður fjallið eftir að hafa náð toppnum.

Vissu af leiðangrinum 1933

Fjallgöngumennirnir á vegum National Geographic voru að vinna sig niður fjallið þegar þeir komu að súrefnisflösku frá árinu 1933, sama ári og hlutur í eigu Sandys hafði fundist.

Fjallgöngumennirnir vissu af leiðangrinum árið 1933 og gerðu sér vonir um að finna eitthvað sem gæti gefið þeim vísbendingu um örlög Sandys. Skömmu síðar fundu þeir stígvélið.

Stígvélið og það sem það hafði að geyma hafði verið varðveitt undir íslagi sem var tekið að bráðna þegar mennirnir komu að því.

Búið er að koma stígvélinu og innihaldi þess niður af fjallinu af ótta við að hrægammar trufli fundinn.

Eftir fundinn leituðu fjallgöngumennirnir fleiri vísbendinga um örlög Sandys en án árangurs. Jimmy Chin, einn þeirra fjallgöngumanna sem fundu stígvél Sandys, birti mynd af sér með fundinum á Instagram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert