Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í Líbanon vara við hörmungarástandi í landinu. Ísraelsher berst nú gegn hryðjuverkasamtökunum Hisbollah og Hamas á tveimur vígstöðum, á heilögum degi gyðinga, Yom Kippur.
Ísraelsmenn hafa mátt þola mikla gagnrýni af hálfu þjóðarleiðtoga heimsins fyrir að skjóta á höfuðstöðvar friðargæsluliða SÞ sem særði fimm starfsmenn.
Sean Clancy, yfirmaður írska hersins, og Emmanuel Macron Frakklandsforseti segja að friðargæsluliðarnir hafi verið skotmarkið og að það hafi ekki verið tilviljanakennt.
Ísraelsmenn segja hins vegar að þeir hafi verið að bregðast við „bráðri ógn“ 50 metrum frá höfuðstöðvunum.
Hisbollah-samtökin sögðu í dag að þau hefðu skotið flugskeytum yfir landamæri norðurhluta Ísraels.
Andrea Tenenti, talsmaður friðargæsluliða SÞ í Líbanon, sagði í viðtali við AFP fréttastofuna að hann óttaðist að hernaðaraðgerðir Ísraels gegn Hisbollah í suðurhluta Líbanon gætu fljótlega farið úr böndunum og orðið að svæðisbundnum átökum sem myndu hafa afdrifarík áhrif á alla.
Ísraelar hafa áður sagt íbúum í suðurhluta Líbanon að snúa ekki aftur heim þar sem hersveitir þeirra berjast nú gegn Hisbollah í stríði sem hefur kostað 1.200 manns lífið frá því í lok september og neytt yfir milljón manna til að yfirgefa heimili sín.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur varað við því að sama eyðilegging gæti orðið í Líbanon og á Gasasvæðinu. Hvatti hann íbúa Líbanon til að losa sig við Hisbollah-samtökin svo hægt væri að ljúka stríðinu.