Vissi að hann myndi deyja í fangelsi

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Rússneski stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalní, sem lést í febrúar, vissi að hann myndi deyja í fangelsi samkvæmt endurminningum hans sem verða gefnar út síðar í október.

Fréttamiðillinn The New Yorker hefur nú birt brot úr bókinni sem inniheldur dagbókarskrif Navalnís á meðan hann sat í fangelsi.

„Ég mun eyða restinni af lífinu mínu hérna og deyja hérna,“ skrifaði stjórnarandstöðuleiðtoginn í mars 2022 er hann sat í fanganýlendunni fyrir norðan heimskautsbaug þar sem hann afplánaði 19 ára fangelsisdóm.

„Það verður enginn til að kveðja. Öll afmæli verða haldin án mín. Ég mun aldrei sjá barnabörnin mín.“

Rússnesk útgáfa gefin út

Endurminningar leiðtogans fanga þann einmanaleika sem fylgdi setu hans í fanganýlendunni en þó má einnig sjá vott af húmor.

Í einu brotanna úr endurminningunum sem hefur verið birt lýsir hann degi sínum með þeim hætti að hann vakni kl. 06:00, borði morgunmat kl. 06:20 og fari að vinna kl. 06:40.

„Í vinnunni situr þú í sjö tíma við saumavélina á kolli fyrir neðan hnéhæð. Eftir vinnu heldurðu áfram að sitja í nokkrar klukkustundir á trébekk undir mynd af Pútín. Þetta er kallað „agavinna.““

Endurminningarnar bera heitið Patriot, eða föðurlandsvinur, og verða gefnar út af bandaríska útgefandanum Knopf, sem ætlar einnig að gera rússneska útgáfu.

Vildi ekki gefast upp

Hefur ritstjóri The New Yorker, David Remnick, sagt að ómögulegt sé að lesa endurminningar Navalnís án þess að hneykslast á hörmungum þjáninga hans og dauða.

Í endurminningunum fæst einnig svar við því af hverju Navalní hélt aftur til Rússlands eftir að eitrað hafði verið fyrir honum og hann dvalið í Þýskalandi á meðan hann jafnaði sig.

„Ég vil ekki gefast upp á landi mínu eða svíkja það. Ef sannfæring þín skiptir einhverju máli verður þú að vera reiðubúinn til að berjast fyrir henni og færa fórnir ef þess þarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert