Pólland bannar tímabundið viðtöku hælisleitenda, segir Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands.
The Telegraph greinir frá.
Tusk sagði að stjórnin í Varsjá, höfuðborg Póllands, yrði að ná aftur fullri stjórn á landamærum Póllands. Hann sagði nauðsynlegt að loka fyrir viðtöku hælisleitenda þar sem Hvít-Rússar, sem eru bandamenn Rússa, flytji fólk að pólsku landamærunum til að valda óstöðugleika innan Evrópusambandsins.
Pólland styður Úkraínu í stríðinu við Rússa og telur sig verða fyrir ágangi á landamærunum af völdum Rússa og bandamanna. Hópar fólks frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku hafa komið til Póllands með millilendingu í Hvíta-Rússlandi. Tusk kallar aðgerðirnar „blendingsstríð" af hálfu Rússa og bandamanna.
Tusks boðar herta innflytjendastefnu í Póllandi sem virðist ekki vera tímabundin. Hann varar við því að pólsk menning sé í hættu ef mikill fjöldi útlendinga með ólíkan menningarbakgrunn kemur inn í landið. „Þeir sem vilja koma til Póllands verða að virða pólskar hefðir, pólska siði, þeir verða að vilja aðlagast,“ segir Tusk.
Alþjóðalög kveða á um reglur er varða hælisvist. Til að koma í veg fyrir lagaleg álitamál ætlar Tusk að krefjast þess að Evrópusambandið viðurkenni ákvörðunina.
„Ég mun krefjast viðurkenningar í Evrópu fyrir þessa ákvörðun,“ segir Tusk.
Í næstu viku er leiðtogafundur ESB-ríkja. Búist er við að málefni hælisleitenda verði ráðandi á dagskrá leiðtogafundarins.