Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, hefur ekki spilað golf síðan Ryan Wesley Routh var handtekinn grunaður um að hafa ætlað að ráða honum bana.
Bandaríska fréttaveitan ABC greinir frá.
Þann 15. september kom Routh sér fyrir með hríðskotariffil í runna á jaðri golfvallar Trumps í West Palm Beach í Flórída, þar sem Trump var að spila golf. Meðlimur í öryggissveit Trumps kom auga á Routh, skaut nokkrum skotum í átt að honum og Routh flúði vettvang. Hann var handtekinn skömmu síðar.
Ekki er búist við að Trump fari aftur á golfvöllinn fyrr en ný öryggisáætlun liggi fyrir. Heimildir ABC segja að búist sé við að hún taki gildi eftir kosningar, en Bandaríkjamenn kjósa sér forseta 5. nóvember.
Trump á nokkra golfvelli og spilar golf almennt reglulega.