Karlmaður var handtekinn nálægt kosningafundi Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, með haglabyssu og hlaðna skammbyssu.
Kosningafundurinn fór fram í Coachella í Kaliforníu-ríki í gær.
Maðurinn hafði ekki leyfi fyrir byssunum. Bandaríska leyniþjónustan sagðist vita af handtökunni og að hvorki Trump né fundargestir hefðu verið í neinni hættu. Rannsókn stendur yfir á málinu.
Maðurinn sem var handtekinn heitir Vem Miller og er 49 ára frá Las Vegas. Honum var sleppt lausum gegn tryggingu. Hann var á svörtum jeppa þegar hann var stöðvaður við eftirlit lögreglunnar.
Lögreglustjórinn í Riverside-sýslu sagði um manninn sem var handtekinn að það væri „algjörlega engin leið fyrir nokkurt okkar að vita hvað var að gerast í höfðinu á honum“.
Hann bætti við að maðurinn hefði verið með mörg vegabréf og skilríki með mismunandi nöfnum í bílnum, sem voru óskráð.
Tvær tilraunir hafa verið gerðar til að ráða Trump af dögum. Sú fyrri var gerð í Pennsylvaníu-ríki þegar byssukúla strauk eyra hans og sú síðari hjá golfvelli hans í Flórída.