Norðmaður grunaður um manndráp í Finnlandi

Karlmaður á sjötugsaldri, sem finnskir fjölmiðlar kveða norskan, situr í …
Karlmaður á sjötugsaldri, sem finnskir fjölmiðlar kveða norskan, situr í haldi lögreglu í Espoo í Finnlandi grunaður um að hafa skotið sambýlismann sinn á þrítugsaldri til bana í gærkvöldi. Ljósmynd/Vefur finnsku lögreglunnar

Norðmaður situr í haldi lögreglu í Finnlandi og liggur undir grun um að hafa skotið mann til bana í borginni Espoo sem liggur upp að höfuðborginni Helsinki. Frá þessu greina finnskir fjölmiðlar í dag og segja atburðinn hafa átt sér stað á heimili mannanna er verið hafi sambýlismenn.

Vill finnska lögreglan hvorki greina frá nöfnum grunaða né fórnarlambsins en Matti Högman, sem fer með stjórn rannsóknarinnar, greinir frá því að lögreglu bjóði í grun hver ástæðan var fyrir ódæðinu, en hafi ekki tekið afstöðu til meintrar ástæðu þar sem grunaði hafi enn sem komið er ekki sætt yfirheyrslu.

Handtekinn mótþróalaust

Það var íbúi í sama húsi sem hafði samband við lögreglu í gærkvöldi og tilkynnti um atburðinn og var grunaði handtekinn á vettvangi án mótþróa, eftir því sem lögregla greinir frá. Hefur norska dagblaðið VG það eftir finnskum fjölmiðlum að grunaði sé á sjötugsaldri en fórnarlambið á þrítugsaldri.

Norska rannsóknarlögreglan Kripos, sem ríkisútvarpið NRK hefur sett sig í samband við, kveðst eingöngu þekkja til málsins gegnum umfjöllun finnsku miðlanna og bendir Åste Dahle Sundet upplýsingafulltrúi Kripos á finnsk lögregluyfirvöld til frekari upplýsingagjafar um atburðinn.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert