Skotinn til bana og málið fellt niður

Til skotbardaga kom í Stavanger fyrir réttu ári þegar maður …
Til skotbardaga kom í Stavanger fyrir réttu ári þegar maður forðaði sér af vettvangi umferðarslyss á bíl ökumanns sem hann tók traustataki auk þess að hneppa ökumanninn í gíslingu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Mál tveggja lögreglumanna í Stavanger á vesturströnd Noregs, sem skutu mann til bana við gíslatökuaðstæður þar í bænum í fyrrahaust, hefur verið fellt niður í meðförum rannsóknardeildar um innri málefni lögreglunnar, Spesialenheten for politisaker eins og hún heitir. Réttargæslulögmaður kveður fjölskyldu hins látna þyngt.

Var atburðarás málsins 22. október í fyrra í grófum dráttum sú að maður á fimmtugsaldri, sem átti yfir höfði sér réttarhöld í desember vegna hótana í garð lögregluþjóna, stakk af frá umferðarslysstað í sveitarfélaginu Randaberg að kvöldi téðs dags með því að taka aðra bifreið traustataki og eiganda hennar í gíslingu og var auk þess vopnaður.

Sýndu ekki saknæma háttsemi

Lögregla veitti eftirför og er henni tókst að stöðva för mannsins á E39-brautinni við Eiganes-göngin skömmu síðar kom til skotbardaga með þeim afleiðingum að gíslatökumaðurinn var skotinn til bana auk þess sem annar tveggja lögregluþjóna á vettvangi og gíslinn hlutu skotsár – þó ekki lífsháskaleg.

„Lögregluþjónarnir sýndu ekki af sér saknæma háttsemi er skipst var á skotum,“ sagði Terje Nybøe, formaður rannsóknardeildarinnar um innri málefni, er hann kynnti skýrslu nefndarinnar um atvikið á blaðamannafundi fyrir helgi.

Kveður hann lögreglumönnunum hafa verið skylt að bregðast við gjörðum gíslatökumannsins þar sem teflt var um líf manneskju sem var berskjölduð í augljóslega lífshættulegri atlögu.

Brást við sem vænta mátti

„Notkun skotvopna var í senn nauðsynleg, forsvaranleg og helgaðist af aðstæðum. Um löglega lögregluaðgerð var að ræða,“ sagði Nybøe enn fremur og rökstuddi þar með þá ákvörðun rannsóknardeildarinnar að hætta rannsókninni.

„Niðurstaða rannsóknarinnar er fyrirsjáanleg. Hann brást við svo sem vænta mátti í samræmi við aðstæður,“ segir Anette Mokleiv, lögmaður annars lögreglumannanna sem hleyptu af skotum eftir að bifreið gíslatökumannsins var stöðvuð. Skaut annar þeirra níu skotum af skammbyssu en hinn fimm úr hríðskotariffli.

Setjast á rökstóla

Réttargæslulögmaður fjölskyldu hins látna, Vetle Andre Michell Jensen, kveður skjólstæðinga sína slegna, fjölskyldan hefði reiknað með annarri niðurstöðu. „Fjölskyldan er í áfalli yfir niðurstöðunni,“ segir Jensen. „Við munum setjast á rökstóla áður en við hugsanlega kærum heildarniðurstöðuna til ríkissaksóknara,“ heldur hann áfram.

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar, sem meðal annars byggði á hljóðupptökum af talstöðvafjarskiptum lögreglu meðan á aðgerðinni stóð, auk krufningar gíslatökumannsins og vettvangsrannsóknum, var skotvopnið sem sá síðastnefndi beitti skammbyssa sem gerð var til að skjóta gúmmíkúlum og skaut maðurinn fimm slíkum að lögreglu. Handhöfn vopna af þessari gerð er leyfisskyld og teljast þau skotvopn í skilningi vopnalaga í Noregi.

NRK

NRK-II (umfjöllun um atburðinn í kjölfar hans)

Dagsavisen

Fréttatilkynning nefndarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert