Árás á íranska innviði ekki í kortunum

Reykur yfir þorpinu Taybeh í suðurhluta Líbanons í morgun eftir …
Reykur yfir þorpinu Taybeh í suðurhluta Líbanons í morgun eftir loftárás Ísraela. AFP

Ísraelar hafa fullvissað Bandaríkjamenn um að fyrirhuguð hefndarárás á Íran muni ekki beinast gegn kjarnorku- eða olíuinnviðum landsins.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá þessu í gær.

Ísrael hefur heitið því að hefna fyrir flugskeytaárásir Írana á landið 1. október sem þeir efndu til í hefndarskyni vegna dráps Ísraels á hershöfðingjum sem tengjast Íran.

Benjamín Netanjahú í síðasta mánuði.
Benjamín Netanjahú í síðasta mánuði. AFP/Spencer Platt

Ónafngreindir bandarískir embættismenn sögðu The Washington Post að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefði fullvissað Hvíta húsið um að skotmörkin í fyrirhugaðri árás á Íran yrðu eingöngu af hernaðarlegum toga.

Hagsmunir Ísraels ganga fyrir

Í tilkynningu frá skrifstofu Netanjahús í morgun kom fram að Ísrael muni hlusta á skoðanir Bandaríkjamanna en að þeir muni bregðast við flugskeytaárás Írans með tilliti til hagsmuna þjóðarinnar.

„Við hlustum á skoðanir Bandaríkjanna en við munum taka endanlegar ákvarðanir sem byggja á hagsmunum þjóðarinnar,“ sagði í tilkynningunni.

Starfsmenn Rauða krossins í Líbanon að störfum í gær eftir …
Starfsmenn Rauða krossins í Líbanon að störfum í gær eftir loftárás Ísraela á þorpið Aito. AFP/Fathi Al-Masri

21 drepinn í gær

Ísraelar gerðu árásir á austurhluta Líbanons í morgun, að sögn líbanskra fjölmiðla.

Í gær var að minnsta kosti 21 drepinn í árás Ísraela á þorp í norðurhluta landsins.

Engin miskunn

Netanjahú hefur heitið því að sýna Hisbollah-samtökunum enga miskunn.

„Við munum halda áfram án miskunnar að ráðast á Hisbollah á öllum svæðum Líbanons, þar á meðal Beirút,“ sagði Netanjahú í gær, degi eftir að fjórir ísraelskir hermenn voru drepnir í drónaárás Hisbollah á ísraelska herstöð. 60 til viðbótar særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka