Banna skipulagt pöbbarölt

Steggja- og gæsahópar verða að finna sér eitthvað annað að …
Steggja- og gæsahópar verða að finna sér eitthvað annað að gera í Prag. Ljósmynd/Colourbox

Bann við skipulögðu pöbbarölti á vegum ferðaþjónustufyrirtækja hefur verið samþykkt í borgarstjórn Prag, höfuðborg Tékklands, og tekur gildi á næstunni. BBC greinir frá.

Er það tilraun borgaryfirvalda til að fækka hávaðasömum óróaseggjum á börum og veitingastöðum borgarinnar og á sama tíma laða að fágaðri gesti.

Prag hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir steggja- og gæsahópa sem vilja sletta ærlega úr klaufunum og hafa ferðaþjónustufyrirtæki boðið upp á ferðir fyrir slíka hópa. 

Reynt að hylma yfir skort á lögreglumönnum

Þegar bannið tekur gildi mun væntanlega eitthvað draga úr vinsældum slíkra ferða, þar sem ekki verður í boði að fara í skipulagðar ferðir á barina frá klukkan tíu á kvöldin og til sex á morgnanna.

Breytingin er sögð gerð vegna mikillar hávaðamengunar og slæmrar umgengni ofurölvi ferðamanna sem hafi neikvæð áhrif á orðstír borgarinnar, ásamt því að auka kostnað við löggæslu og þrif.

Talsmaður hótels- og veitingafólks hefur ekki áhyggjur af því að bannið hafi neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja í borginni. Bendir hann á að engum verði bannað að fara á pöbbarölt, en skipulagðar hópferðir á barina sé ekki eitthvað sem rekstraraðilar þarfnist.

Talsmaður Prague Pub Crawl, sem boðið hefur upp á skemmtiferðir á bari borgarinnar segir bannið einungis tilraun borgaryfirvalda til að hylma yfir skort á lögreglumönnum í miðborginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert