Nemendur í bestu skólunum kunna ekki að lesa bækur

Nemendur í eftirsóttum háskólum eiga nú erfitt með að lesa …
Nemendur í eftirsóttum háskólum eiga nú erfitt með að lesa fleiri en eina bók á önn. AFP/Drew Angerer

Að lesa bók spjaldanna á milli er verkefni sem reynist nú mörgum nemendum í Bandaríkjunum ofviða. Jafnvel nemendum í bestu og eftirsóttustu háskólunum. 

Nemendur koma verr undirbúnir í háskóla, búa yfir verri skilningi á tungumálinu, hafa minna úthald þegar kemur að erfiðari textum og eiga erfitt með að halda einbeitingu.

Rose Horowitch, aðstoðarritstjóri tímaritsins Atlantic, ræddi við á fjórða tug prófessora. Hún fjallar um þróunina í forsíðugrein tímaritsins sem kom út í byrjun mánaðar.

Fullyrðir hún í greininni að margir nemendur séu ekki lengur reiðubúnir að lesa bækur eins og þær leggja sig. Á það einnig við um nemendur sem afreka það að komast í eftirsóttustu háskóla landsins.

Veigra sér við að lesa nokkrar bækur

Tímarnir hafa breyst og mennirnir með. Nicholas Dames, sem kennir bókmenntir við virta háskólann Columbia í New York, hefur fundið fyrir því í sínu starfi, greinir Horowitch frá.

Dames lýsir því í viðtalinu við aðstoðarritstjórann að nemendur hans veigri sér nú við að lesa fleiri en eina bók yfir önn.

Hann er ekki einn um þessa upplifun, heldur hafa samstarfsfélagar hans einnig orðið varir við þessa breytingu í fari nemenda. 

Nemendur hafa minna úthald en áður þegar þeir glíma við …
Nemendur hafa minna úthald en áður þegar þeir glíma við erfiða texta. AFP/Miguel Medina

Hafði aldrei þurft að lesa bók

Dames segir það hafa runnið upp fyrir honum einn haustdag árið 2022 hvað það væri sem útskýrði þessa þróun, þegar fyrsta árs nemi gekk á hans fund til að ræða verkefni sem hann átti erfitt með að leysa.

Í áfanganum sem Dames kennir fá nemendur oft aðeins eina eða tvær vikur til að klára bækur, sem geta stundum verið þungar og langar. Nemandinn upplýsti þá Dames að hann hefði aldrei verið látinn lesa heila bók í þeim framhaldsskóla sem hann var í.

Hann hefði vissulega fengið úthlutað útdráttum, ljóðum og greinum til að lesa, en aldrei bók sem hann átti að lesa spjaldanna á milli.

Nemendur kunni ekki að lesa bækur

„Ég missti andlitið,“ lýsir Dames fyrir Horowitch.

Fram til þessa hafði hann ekki gert sér grein fyrir í hverju vandinn lægi en nú væri það ljóst.

Framhaldsskólar höfðu einfaldlega hætt að gera þá kröfu til nemenda að þeir læsu bækur. Nemendur kynnu einfaldlega ekki að lesa svo löng rit.

„Ég missti andlitið,“ lýsir Dames fyrir Horowitch.
„Ég missti andlitið,“ lýsir Dames fyrir Horowitch. AFPJeff Pachoud

Erfitt að hundsa þróunina

Það er gömul saga og ný að eldri kynslóðir hneykslist á þeim sem yngri eru – svona var þetta sko ekki þegar ég var yngri.

Dames er meðvitaður um það.

„Ég freistast oft til þess að efast um að þessi þróun sé ný af nálinni,“ segir Dames. „En þetta virðist þó vera nýtt fyrirbæri sem ég á erfitt með að hundsa,“ heldur hann áfram.

Fyrir tuttugu árum áttu nemendur Dames ekki í vandræðum með að eiga djúpar samræður um Hroka og hleypidóma eina vikuna og Glæp og refsingu þá næstu.

Í dag er annað hljóð í nemendum sem hika ekki við að kvarta undan vinnuálaginu í áföngunum hans.

Og það er ekki bara leshraðinn sem er áhyggjuefni heldur virðast nemendur ekki ná að meðtaka smáatriði sem koma fram í bókinni á sama tíma og þeir reyna að halda í við söguþráðinn.

Framúrskarandi nemendur sjaldgæfari

Horowitch segir rannsóknir skorta á þessu sviði. Hún ræddi þó við 33 prófessora sem höfðu langflestir sömu upplifun og Dames.

Þar á meðal er Anthony Grafton, sagnfræðingur við Princeton-háskólann. Hann segir nemendur nú koma verr búna undir háskólanám en áður. Orðaforðinn þeirra sé takmarkaðri og skilningur á tungumálinu minni.

Enn séu þó til framúrskarandi nemendur, sem búi yfir miklum lesskilningi og skrifi glæsilega texta, en þeim fari fækkandi. Þeir eru í raun aðeins undantekning.

Jack Chen, prófessor við Virginíuháskóla, segir nemendur gjarnan „slökkva á sér“ þegar hugmyndir sem þeir skilja ekki eru bornar upp við þá. Þá hafi þeir minna úthald þegar kemur að því að lesa erfiða texta.

Daniel Shore situr í stjórn enskudeildar Georgetown. Hann segir nemendur eiga erfitt með að halda einbeitingu, jafnvel þegar þeir lesa stuttan texta á borð við sonnettu.

Sjá umfjöllun Atlantic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert