Norður-Kóreumenn sprengdu upp hluta af táknrænum vegum sem tengja þjóðina við Suður-Kóreu.
Suðurkóreski herinn tilkynnti um þetta og sagðist hafa brugðist við með því að skjóta í átt að Norður-Kóreu.
Norðurkóreski herinn hét því í síðustu viku að loka landamærunum fyrir fullt og allt í kjölfar þess að leiðtogi landsins, Kim Jong-un, lýsti því yfir að Suður-Kórea væri helsti óvinur landsins. Herinn hefur meðal annars komið jarðsprengjum fyrir nálægt landamærunum síðustu mánuði.
Norður-Kórea sakaði nágranna sína í síðustu viku um að hafa notað dróna til að dreifa bæklingum með áróðri gegn stjórn landsins um höfuðborgina Pyongyang.
Kim Yo Jong, systir Kims Jong-un, varaði í morgun Suður-Kóreu við hefndaraðgerðum og sagðist hafa sönnunargögn fyrir því að þjóðin hefði dreift áróðrinum.