Norsk stjórnvöld dæmd í Strassborg

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg felldi dóm yfir norska ríkinu í …
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg felldi dóm yfir norska ríkinu í síðustu viku. Ljósmynd/Evrópuráðið

Norsk stjórnvöld fengu í síðustu viku áfellisdóm fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg í máli gæsluvarðhaldsfanga sem svipti sig lífi í norsku fangelsi árið 2020 í kjölfar þess að hafa verið fluttur þangað frá stofnun sem hann var vistaður á vegna andlegs ástands hans.

Telst Noregur hafa brotið gegn tveimur greinum mannréttindasáttmála Evrópu, 2. grein, sem fjallar um rétt manna til lífs, og 13. grein sem tryggir þeim rétt til raunhæfrar leiðar til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi.

Varð öðrum vistmanni að bana

Kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að norsk stjórnvöld hafi ekki gert það sem af þeim mátti vænta til að verja líf mannsins þegar hann var fluttur af stofnuninni þar sem hann hafði hlotið meðhöndlun.

Árið 2019 hlaut maðurinn dóm fyrir tilraun til manndráps og fleiri brot og hljóðaði dómurinn upp á vistun á viðeigandi stofnun. Hálfu ári síðar varð hann öðrum vistmanni að bana. Í kjölfarið var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og þá fluttur yfir í gæsluvarðhaldsfangelsi þar sem ekki voru fyrir hendi aðstæður sem tóku mið af andlegu ástandi hans né starfsfólk sem var í stakk búið til að sinna honum á sömu forsendum.

Faðir mannsins fór með málið fyrir dómstólinn í Strassborg þar sem framangreint var niðurstaða dómenda.

Rett24
ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert