Brunnu lifandi: Aðstæðurnar ólýsanlegar

Frá eldsvoðanum á mánudag.
Frá eldsvoðanum á mánudag. AFP

Minnst fjórir létu lífið eftir að Ísraelsher gerði loftárás á sjúkratjaldbúðir á Gasasvæðinu. Fjölskylda manns sem sást brenna lifandi í myndskeiði segir aðstæðurnar ólýsanlegar.

Árásin var gerð á tjaldbúðir al-Aqsa-spítalans í borginni Deir al-Balah á Gasasvæðinu á mánudag. Minnst fjórir eru látnir og tugir særðir.

Læknar án landamæra (MSF) segja fimm látna og 65 slasaða, þar á meðal 40 sjúklingar: 22 karlmenn, átta konur og tíu börn.

Mæðgin brunnu lifandi

Reuters greinir frá því að maðurinn í myndskeiðinu hafi verið Shaban al-Dalou, sem hefði orðið 20 ára í dag. Móðir hans, Ala'a Abdel Nasser al-Dalou, er einnig meðal þeirra sem hafa verið staðfest látin.

„Ég get ekki lýst tilfinningunni að sjá bróður minn brenna fyrir augum mér og móður mína brenna,“ segir hinn 17 ára Mohammed al-Dalou, sonur Ala'a og bróðir Shaban, en hann hljóp út úr tjaldi sínu um leið og hann heyrði í sprengingunni.

Ahmad Shaaban Al-Dalou, faðir Shaban og eiginmaður Ala'a, eftir eldsvoðann.
Ahmad Shaaban Al-Dalou, faðir Shaban og eiginmaður Ala'a, eftir eldsvoðann. AFP

Faðir hans hafi náð yngri systkinum hans út úr tjaldinu. Kveðst Mohammed þá hafa komið auga á Shaban þar sem hann stóð í logum og hafi reynt að hlaupa til hans til að koma honum til bjargar en segir aðra viðstadda hafa haldið sér aftur. 

Starfandi blaðamaður á vettvangi fyrir fréttastofu Reuters kom að líki Shaban Dalou og tók upp myndband þar sem björgunaraðilar höfðu vafið sviðnu líki hans inn í teppi og fluttu á brott.

Máttvana og brotnaði niður

Vitni greina BBC frá því að atburðir mánudagskvöldsins hafi verið ein sú versta sjón sem þau hafi séð. Þau hafi upplifað sig máttvana er þau horfðu með skelfingu upp á fólk verða eldinum að bráð.

BBC hefur staðfest að myndbandið af manneskju standa í ljósum logum hafi verið tekið í al-Aqsa-sjúkrabúðunum. Annað myndefni sýnir fólk reyna að slökkva eldinn innan um öskur þeirra sem enn eru í tjöldum sínum og í bakgrunni má heyra og sjá sprengjur á næturhimninum.

Slösuð stúlka kveðst hafa heyrt öskur fólks úr tjöldum í kring og að aðrir hafi reynt að rífa tjöldin til að hjálpa þeim út. Maður lýsir því að hafa brotnað niður þar sem hann hann horfði upp á fólk brenna lifandi.

Vitni greindu frá því að atburðir mánudagskvöldsins hefðu verið ein …
Vitni greindu frá því að atburðir mánudagskvöldsins hefðu verið ein sú versta sjón sem þau hefðu séð. AFP

Ísraelsher segir Hamas hafa starfstöðvar á sjúkrahúsinu

Ísraelsher segir árásina hafa beinst að herstöðvum Hamas á sjúkrahúsinu og að herinn rannsaki nú orsök eldsvoðans.

Segjast þeir telja líklegast að eldurinn hafi kviknað vegna annarrar sprengju og segja Hamas stefna lífi óbreyttra borgara í hættu með því að vera á meðal þeirra.

Hamas-samtökin þvertaka fyrir að liðsmenn þeirra hafi verið meðal fólksins á sjúkrahúsinu.

Starfsfólk Lækna án landamæra (MSF) sem starfar á al-Aqsa spítalanum kveðst ekki hafa neina vitneskju um að Hamas sé með starfstöðvar innan spítalans. Starfsemi spítalans hafi einungis falist í heilbrigðisþjónustu.

Aðallega drepið óbreytta borgara

Stríðsrekst­ur Ísra­els í Gasa hef­ur orðið meira en fjörutíu þúsund manns að bana. Með stríðsrekstr­in­um hafa Ísra­el­ar aðallega drepið óbreytta borg­ara, að sögn heil­brigðisráðuneyt­is­ins sem er á yf­ir­ráðasvæði Ham­as.

Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa sagt töl­urn­ar áreiðan­leg­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert