Flugfélag fær himinháa sekt fyrir að mismuna gyðingum

Lufthansa segist í yfirlýsingu hafa innleitt nýja þjálfunaráætlun „til að …
Lufthansa segist í yfirlýsingu hafa innleitt nýja þjálfunaráætlun „til að takast á við gyðingahatur og mismunun“. AFP

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa sektað þýska flugfélagið Lufthansa um 4 milljónir Bandaríkjadala eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að flugfélagið hafi mismunað yfir 100 gyðingum með því að hindra að þeir kæmust um borð í flug árið 2022. Sektin nemur um 500 milljónum króna.

128 farþegum var meinað að fara með millilendingarflugi frá Bandaríkjunum til Þýskalands eftir að nokkrir þeirra fóru ekki eftir fyrirmælum, meðal annars um andlitsgrímu, að sögn bandarískra samgönguyfirvalda.

Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna segir sektina vegna atviksins, sem gerðist í Frankfurt þann 3. maí 2022, vera þá stærstu sem gefin hafi verið vegna mannréttindabrots.

Farþegarnir klæddust hefðbundnum klæðnaði gyðinga, m.a. svörtum húfum og svörtum jökkum. Þeir sögðu við lögreglu að komið hefði verið fram við sig í einum hóp þrátt fyrir að margir væru ekki einu sinni í flugi saman og þekktust ekki.

Bárust yfir 40 kvartanir

Lufthansa neitaði öllum um far „vegna augljósrar óhegðunar fárra, því þeir voru opinberlega og sýnilega gyðingar,“ segir í yfirlýsingu frá ráðuneytinu.

Atvikið hófst þegar flugstjóri fyrsta flugsins tilkynnti öryggisstarfsfólki Lufthansa að sumir farþegar fylgdu ekki reglum, m.a. þeim er vörðuðu andlitsgrímur í ferðinni og stæðu ekki í hópum á göngum eða nálægt neyðarútgöngum.

Í þessu tilviki bárust ráðuneytinu yfir 40 kvartanir vegna mismununar frá farþegum af gyðinglegum uppruna.

Lufthansa sagði við yfirvöld að það hefði margsinnis beðist opinberlega afsökunar á því að hafa meinað farþegunum að halda ferðum sínum áfram, en neitaði öllum ásökunum um að einhverjir starfsmenn þess hefðu gerst sekir um nokkurs konar mismunun.

Flugfélagið segir nú í yfirlýsingu að Lufthansa hafi þegar innleitt nýja þjálfunaráætlun „til að takast á við gyðingahatur og mismunun“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert