Leit að líkamsleifum bar engan árangur

Leitin bar ekki árangur.
Leitin bar ekki árangur. Samsett mynd/Google Maps/Wikipedia

Leit að líkamsleifum bresks hermanns á Írlandi sem var grafinn af liðsmönnum Írska lýðveldishersins (IRA) fyrir næstum 50 árum síðan er lokið án árangurs.

Yfirvöld greindu frá þessu í morgun.

Robert Nairac var rænt af IRA þegar hann var staddur á krá í Armagh-sýslu í Norður-Írlandi í maí árið 1977 er hann starfaði þar leynilega við upplýsingasöfnun. 

Pyntaður og skotinn til bana

Hermaðurinn, sem var 28 ára, var fluttur á brott í skóglendi í nágrenninu, hinum megin við landamærin að Írlandi, þar sem hann var pyntaður og skotinn til bana.

Nairac var hluti af þekktum hópi sem hefur verið nefndur Hinir horfnu, sem samanstefndur af 17 fórnarlömbum ofbeldis í tengslum við yfirráð Bretlands yfir Norður-Írlandi, þar sem lík voru grafin án þess að nokkur vissi af.

Líkamsleifar fjögurra, þar á meðan Nairacs, eru enn ófundnar.

Sérstakur rannsóknarhópur, ICLVR, sem hefur það verkefni að finna þessi fórnarlömb hóf leitina í ágúst síðastliðnum á ræktuðu landi nálægt landamærunum.

Í morgun tilkynnti hann að leitin hefði ekki borið árangur.

„Mjög svekkjandi“

„Það er mjög svekkjandi að leitin að líkamsleifum Roberts Nairac hafi lokið án árangurs og hugur okkar er hjá fjölskyldu Nairac, sérstaklega systrum hans Rosemonde og Gabrielle,“ sagði í yfirlýsingu Tims Daltons og Rosalie Flanagan hjá rannsóknarhópnum.

Jon Hill, formaður hópsins, óskaði eftir upplýsingum frá almenningi í tengslum við leitina í Faughart, um 90 kílómetrum norður af Dublin.

Leitað var í Faughart, nálægt landamærum Norður-Írlands og Írlands.
Leitað var í Faughart, nálægt landamærum Norður-Írlands og Írlands. Kort/Google

„Við leituðum á frekar litlu svæði, innan við einnar ekru (0,4 hektara), og við gerðum það vegna þess að upplýsingarnar sem við fengum voru það trúverðugar,“ sagði hann.

„Okkar reynsla frá öðrum leitum af þessum toga er að þótt við höfum verið á rétta svæðinu hefur nákvæm staðsetning ekki fundist við fyrstu leit,“ bætti hann við.

Hilary Benn.
Hilary Benn. AFP/Paul Ellis

Hugur ráðherra hjá systrunum

Hilary Benn, ráðherra Norður-Írlands í bresku ríkisstjórninni, sagðist vera leiður yfir því að leitin hefði ekki borið árangur.

„Hugur minn er hjá systrunum, sem halda áfram að lifa með sársaukanum sem fylgir því að hafa ekki fengið til baka líkamsleifar elskulegs bróður síns,“ sagði Benn í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert