Lifði af úti á rúmsjó í 66 daga

Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Rússlandi hefur nú sjóslysið til rannsóknar og …
Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Rússlandi hefur nú sjóslysið til rannsóknar og er þá sérstaklega verið að kanna hvort brot á öryggisreglum hafi átti sér stað. Ljósmynd/Colourbox

Rússneskum karlmanni var bjargað um borð í fiskibát á mánudag eftir að hafa lifað af 66 daga úti á rúmsjó í litlum uppblásnum gúmmíbát.

Hann var ansi fölur og rauðeygður og hafði lagt mikið af, en að öðru leyti bar hann sig vel þegar hann ræddi við fjölmiðla úr sjúkrarúmi sínu í dag.

Hann gæti hins vegar átt yfir höfði sér ákæru vegna brota á öryggisreglum um borð í bát sínum. AFP-fréttastofan greinir frá.

Maðurinn safnaði regnvatni og hélt á sér hita í svefnpoka …
Maðurinn safnaði regnvatni og hélt á sér hita í svefnpoka úr kameldýrahárum. Kort/Google

Bjargað af Engli

Maðurinn, hinn 46 ára Mikhail Pichugin, fannst á reki undan ströndum Kamtsjatkaskaga, en hann lagði af stað frá Khabarovsk ásamt bróður sínum og syni þann 9. ágúst síðastliðinn og stefndu þeir til Sakhalin, en sjóferðin átti aðeins að taka nokkra klukkutíma. 

Þegar þeir skiluðu sér ekki á áfangastað og ekkert spurðist til þeirra, hófst leit sem skilaði ekki árangri og voru þeir að lokum taldir af. Bróðir Pichugin og sonur létust báðir á hafi úti.

Sjálfur sagðist hann hafa lifað af með „Guðs hjálp.“ „Hvernig á ég annars að túlka það þegar mér er bjargað um borð í bát sem ber nafnið Engill?“  Hann sagðist hafa safnað regnvatni og sofið í svefnpoka fylltum með kameldýrahárum, en þó pokinn blotnaði hélt hann á honum hita.

Vaxtarlagið hjálpaði til 

Konan hans segir það kraftaverk Pichugin hafi lifað af. Þar sem það hafi aðeins verið vistir um borð í bátnum fyrir tveggja vikna ferðalag. Vaxtarlag hans hafi þó líklega hjálpað til, en hann var um 100 kíló þegar hann lagði af stað, en ekki nema um 50 kíló þegar hann fannst á mánudag.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Rússlandi hefur nú sjóslysið til rannsóknar og er þá sérstaklega verið að kanna hvort brot á öryggisreglum hafi átti sér stað. Pichugin gæti mögulega átt yfir höfði sér ákæru vegna málsins og verði hann fundinn sekur getur það varðað allt að sjö ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert