Musk styrkir Trump um 10 milljarða

Á þremur mánuðum safnaði America PAC um 74,95 milljónum dala …
Á þremur mánuðum safnaði America PAC um 74,95 milljónum dala til stuðnings Trump. Elon Musk stofnaði félagið. AFP

Auðkýfingurinn Elon Musk hefur gefið pólitísku hagsmunafélagi sem hann stofnaði til að styðja við bandaríska forsetaframbjóðandann Donald Trump tæpar 75 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir um 10 milljörðum kr. 

Musk, sem er talinn ríkasti maður heims, hefur tekið æ stærri þátt í kosningabaráttu Trumps og fylgdi honum m.a. á svið á kosningafundi í Pennsylvaníu í síðustu viku. Þá hefur Musk reglulega gagnrýnt Kamölu Harris, andstæðing Trumps. 

Trump hefur heitið því, verði hann kjörinn, að skipa Musk í nefnd sem á að vinna gegn skrifstofuveldi bandarískra stjórnvalda.

Borgar fólki til að skrifa undi

Hagsmunafélagið nefnist America PAC og hefur það safnað 74,95 milljónum dala til málefna Trumps á tímabilinu 1. júlí til 30. september, samkvæmt gögnum frá landskjörstjórn Bandaríkjanna.

America PAC einbeitir sér að svokölluðum grasrótaraðgerðum til að hvetja til kosningaþátttöku, meðal annars í sveifluríkjum á borð við Pennsylvaníu sem hafa langstærstu áhrifin á heildarniðurstöður kosninganna.

Á heimasíðu sinni býður America PAC þeim sem hjálpar félaginu að efla kosningaþátttöku „30 dollara á klukkustund, auk bónus fyrir góða frammistöðu“.

Musk sagðist á dögunum ætla að greiða 47 dali hverjum þeim sem fengi kjósanda í sveifluríki til að setja nafn sitt á undirskriftalista til stuðnings skoðanafrelsi og rétti til vopnaburðar.

Harris safnar heilum helling

Á sama tímabili hefur Harris Victory Fund PAC, hagsmunafélag Kamölu Harris, hagnast um 633 milljónir dala (87 ma. kr.) samkvæmt samantekt kjörstjórnar.

Tekjur félagsins á árinu hafa numið 931,2 milljónum dala (127 ma.kr.).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert