Nítján handtökur í stóraðgerð

Lögreglan í Agder í Noregi handtók nítján manns í stærstu …
Lögreglan í Agder í Noregi handtók nítján manns í stærstu aðgerð lögreglu þar í fylkinu nokkru sinni. AFP

Lögreglan í Agder í Suður-Noregi hefur tekið nítján manns höndum í samræmdri lögregluaðgerð, þeirri stærstu sem átt hefur sér stað þar í fylkinu. Liggja hinir handteknu undir grun um að tilheyra hópi sem hefur með höndum skipulagða glæpastarfsemi.

Á blaðamannafundi í morgun gerði Terje Kaddeberg Skaar, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Agder, grein fyrir málinu og kvað hina handteknu liggja undir grun um stórfelld fíkniefnabrot og hafi margir þeirra áður hlotið refsidóma. Hefur lögregla farið fram á gæsluvarðhaldsúrskurð í tilfelli tólf hinna handteknu og tekur Skaar fram að beiðnirnar um gæsluvarðhald gætu orðið fleiri.

Umtalsverðar haldlagningar

Milli 50 og 100 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni sem, samkvæmt fréttatilkynningu er lögregla sendi frá sér fyrir blaðamannafundinn, er sú stærsta í Agder nokkru sinni. Við aðgerðina lagði lögregla hald á umtalsvert magn fíkniefna, reiðufjár og skotvopna.

Ole Magnus Strømmen er verjandi eins grunuðu, manns á þrítugsaldri sem búsettur er á svæðinu. „Hann viðurkennir ekki sök, ég er á leið til fundar við hann núna. Að öðru leyti get ég ekki sagt margt,“ segir verjandinn.

Annar grunaður, skjólstæðingur verjandans Rune Alsted Amundsen, neitar því einnig staðfastlega að ákæruvaldið eigi nokkuð sökótt við hann og kannast ekki við að tilheyra nokkrum félagsskap sem komi að skipulagðri glæpastarfsemi.

Tengist ekki hryðjuverkaógn

Handtekinn maður á þrítugsaldri er að því er virðist sá eini í hópnum sem lýsir sig reiðubúinn til samstarfs með lögreglu og setur sig ekki upp á móti gæsluvarðhaldsúrskurði, herma fregnir norska ríkisútvarpsins NRK sem ræðir við verjandann Hanne Wold Johansen.

Tók lögregla sérstaklega fram á blaðamannafundinum í morgun að aðgerðin og hinir grunuðu tengdust ekki á nokkurn hátt hækkuðu stigi hryðjuverkaógnar í Noregi er yfirvöld tilkynntu um í síðustu viku.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert