Banna staðgöngumæðrun erlendis

Ítalska þingið hefur samþykkt algert lögbann við notkun Ítala á …
Ítalska þingið hefur samþykkt algert lögbann við notkun Ítala á staðgöngumæðrun. AFP

Ítalir hafa fært í lög bann við því að pör ferðist til útlanda til að eignast börn með aðstoð staðgöngumóður. Þegar var lögbann við staðgöngumæðrun á Ítalíu.

Nær lögbannið nú einnig yfir þá sem leita erlendis til að eignast barn með slíkum hætti – þar á meðal í Bandaríkjunum og í Kanada.  

Þeir sem brjóti lögin eigi allt að tveggja ára fangelsisdóm yfir höfði sér og sektir upp á allt að 1 milljón evra, eða um 149 milljónir íslenskra króna. 

Lækkandi fæðingartíðni 

Lögin voru samþykkt með 84 atkvæðum en 58 greiddu atkvæði gegn löggjöfinni á ítalska þinginu í dag.

Mótmæli fóru fram gegn löggjöfinni og sögðu mótmælendur það skjóta skökku við að ríkisstjórnin hygðist gera fólki erfiðara fyrir að eignast börn – þrátt fyrir lækkandi fæðingartíðni í landinu.

Hafa sérfræðingar tjáð BBC að um 90% þeirra sem notist við staðgöngumóður á Ítalíu séu gagnkynhneigðir og að margir feli einfaldlega að þeir hafi farið erlendis til að eignast barn. Hinsegin pör geti aftur á móti ekki notast við sömu „brellu“ jafn auðveldlega.

Gagnrýnendur segja löggjöfina enn einn liðinn í aðför gegn hinsegin …
Gagnrýnendur segja löggjöfina enn einn liðinn í aðför gegn hinsegin pörum sem mega þegar hvorki gangast undir gervifrjóvgun né ættleiða börn í landinu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Aðför gegn hinsegin pörum

Gagnrýnendur segja löggjöfina enn einn liðinn í aðför stjórnarflokks Giorgiu Meloni gegn hinsegin pörum sem mega þegar hvorki gangast undir gervifrjóvgun né ættleiða börn í landinu.

Árið 2023 fól ríkisstjórn Meloni borgarstjórn Mílanó að hætta að skrá börn samkynhneigðra foreldra.

Giorgia Meloni, fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Ítalíu og leiðtogi flokksins Bræður Ítalíu, hefur frá upphafi haldið úti félagslega íhaldssamri stefnu og talað gegn því að hinsegin fólk nýti sér staðgöngumæður. 

Meloni er sjálfyfirlýst kristin móðir og segir börn aðeins eiga að alast upp hjá konu og manni, en orðræða gegn hinsegin-samfélaginu var eitt lykilatriðanna í kosningabaráttu hennar árið 2022. Í einni kosningaræðu sinni hafði Meloni eftirfarandi orð uppi:

„Já við hinni náttúrulegu fjölskyldu, nei við LGBT-hreyfingunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert