Biden afskrifar milljarðanámslán

Joe Biden fellir á síðustu dögum sínum í embætti niður …
Joe Biden fellir á síðustu dögum sínum í embætti niður námslánaskuldir sem nema tæpum 620 milljörðum og er niðurfellingin liður í þeirri stefnu hans á kjörtímabilinu að létta á skuldum almennings. AFP/Saul Loeb

Joe Biden Bandaríkjaforseti gaf það út í dag – hálfum mánuði fyrir forsetakosningar – að hann hygðist veita opinberum starfsmönnum í landinu afskriftir á námslánum þeirra sem nema 4,5 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 620 milljarða íslenskra króna.

Kemur framkvæmd þessa til með að hafa áhrif á um það bil 60.000 lánþega um gervöll Bandaríkin eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Hvíta húsinu, en um er að ræða lokaliðinn í aðgerðum Bidens og Kamölu Harris varaforseta til að létta á skuldum almennings sem staðið hafa yfir í þeirra embættistíð.

Vegi þungt í kjörklefanum

Skuldaniðurfellingin verður líkast til þúsundum heimila búbót nú, er Bandaríkjamenn glíma við brattar verðhækkanir lífsnauðsynja og dagvöru sem staðið hafa frá lokum heimsfaraldursins, enda hafa kjósendur nefnt í skoðanakönnunum vegna yfirvofandi kosninga að aðgerðir frambjóðenda vegna verðlags í landinu muni vega þungt í kjörklefanum.

Biden forseti lét þess getið í yfirlýsingunni um námslánaniðurfellinguna að með henni næðu aðgerðir þeirra Harris á kjörtímabilinu til yfir einnar milljónar skuldara í Bandaríkjunum.

Eitt af skilyrðum niðurfellingarinnar er að þeir sem hennar njóta hafi starfað hjá hinu opinbera í áratug og greitt jafn lengi af lánum sínum.

„Stjórnvöld hafa svikið loforð sín of lengi og aðeins 7.000 manns höfðu fengið niðurfellingu skulda sinna,“ sagði Biden og vísaði til ástandsins áður en hann tók við embætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert