Lík franskrar stúlku fannst eftir 13 mánaða leit

Lögreglan við leit að stúlkunni 28. september, fimm dögum eftir …
Lögreglan við leit að stúlkunni 28. september, fimm dögum eftir að hún hvarf. AFP/Frederick Florin

Lík franskrar unglingsstúlku sem hvarf fyrir 13 mánuðum síðan hefur fundist eftir umfangsmikla leit lögreglunnar.

Lögreglan hafði leitað að stúlkunni, sem var 15 ára og hefur verið kölluð Lina í frönskum fjölmiðlum, síðan hún hvarf á dularfullan hátt 23. september í fyrra.

GPS-gögn komu lögreglunni á sporið

Fjöldi ábendinga hafði borist lögreglunni og ræddi hún við mörg hundruð manns í rannsókn sinni. Þar að auki rannsakaði hún hundruð farartækja.

Að lokum voru það GPS-gögn úr bíl grunaðs morðingja hennar sem komu lögreglunni á sporið í gær. Leitaði hún í skóglendi í héraðinu Nievre í miðhluta Frakklands, um 500 kílómetrum frá staðnum þar sem hún hvarf í Alsace í austurhluta landsins.

AFP/Frederick Florin

Hægt var að bera kennsl á líkið með aðstoð erfðaprófs, að sögn Alexandre Chevrier, starfandi yfirsaksóknara í Strassborg.

Samband við snjallsíma stúlkunnar slitnaði klukkan 11.22 hinn 23. september í fyrra þegar hún var á göngu eftir vegi í átt að lestarstöð í Saint-Blaise-La-Roche þar sem um 250 manns búa. Þaðan ætlaði hún að fara til Strassborgar til að hitta kærastann sinn.

Viku síðar hóf lögreglan rannsókn á hvarfi hennar þar sem grunur lék á að henni hefði verið rænt.

Bíll fannst

Eftir margra mánaða árangurslitla rannsókn fann lögreglan bíl af tegundinni Ford Puba, sem hafði verið nálægt staðnum þar sem Lina hvarf.

Sá sem er grunaður um morðið, Samuel Gonin, hafði verið á bílnum. Gonin framdi sjálfsvíg í júlí áður en hægt var að yfirheyra hann.

Þegar skoðuð var leiðin sem bílnum var ekið kom í ljós að hann hafði m.a. stöðvast á svæðinu þar sem Lina hvarf.

Rannsókn á eftir að leiða í ljós hvernig Lina dó. Meðal annars verður lík hennar krufið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert