Myrti finnska raunveruleikastjörnu

Janne Puhakka var fyrsti atvinnumaðurinn í finnskum ísknattleik sem kom …
Janne Puhakka var fyrsti atvinnumaðurinn í finnskum ísknattleik sem kom út úr skápnum og naut hann gríðarlegra vinsælda meðal Finna. Norskur fyrrverandi sambýlismaður hefur játað að hafa skotið hann til bana á sunnudaginn í Espoo, nágrannaborg Helsinki. Myndin er frá Espoo. Ljósmynd/Wikipedia.org/Drefer

Norðmaður á sjötugsaldri frá Þrændalögum hefur játað að hafa myrt fyrrverandi sambýlismann sinn, finnsku ísknattsleiks- og raunveruleikaþáttastjörnuna Janne Puhakka sem var 29 ára gamall, en mennirnir bjuggu saman í finnsku borginni Espoo, grannborg höfuðbogarinnar Helsinki.

„Janne Puhakka var hvers manns hugljúfi. Okkur nágrönnunum var öllum hlýtt til hans,“ segir Topi Heikonen, nágranni hins myrta, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK sem segir nágranna Puhakka í hreinu áfalli eftir að íshokkístjarnan, sem hafði flutt út fyrir nokkru, var myrt á sunnudaginn en Puhakka hafði þá komið í heimsókn til norska sambýlismannsins sem lyktaði með því að Norðmaðurinn skaut hann til bana með haglabyssu.

Nágranninn, sem NRK ræðir við, segir þá sambýlismennina báða hafa verið hina viðkunnanlegustu nágranna og hafi þeir virst einstaklega hamingjusamir í sambandi sínu sem staðið hefði í áratug.

Hafi lagt á ráðin í viku

Það er finnska lögreglan sem upplýsir norska ríkisútvarpið um að sambandi mannanna hafi lokið fyrir mörgum vikum og Puhakka þá flutt út. Hann hafi hins vegar komið á sunnudaginn til að ræða ýmis atriði varðandi sambandsslit þeirra Norðmannsins en þeim fundi lokið með harmleik.

Lögreglu grunar að Norðmaðurinn hafi lagt á ráðin um ódæðið um að minnsta kosti vikutíma. „Um það höfum við þó enga vissu,“ segir Matti Högman stjórnandi rannsóknarinnar við finnsku sjónvarpsstöðina MTV Uutiset, en finnska ríkisútvarpið YLE hefur það þó eftir lögreglu að Norðmaðurinn liggi undir grun um manndráp að yfirlögðu ráði.

Janne Puhakka var tæplega þrítugur ísknattleiksmaður og raunveruleikasjónvarpsstjarna í Finnlandi.
Janne Puhakka var tæplega þrítugur ísknattleiksmaður og raunveruleikasjónvarpsstjarna í Finnlandi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Vinir grunaða í Noregi eru sem steini lostnir yfir tíðindunum og segja við NRK að þeim þyki með ólíkindum að hann hafi gerst sekur um manndráp. Lýsir einn þeirra honum sem miðpunkti vinahópsins á skólaárum sem hafi látið sig mannúðarmál varða og gjarnan staðið fyrir fjáröflunum til góðgerðarmála.

Sá fyrsti sem kom út úr skápnum

Miikka Hujanen, sem fjallar um afbrotamál á MTV Uutiset, kveður augu Finnlands hvíla á manndrápinu í Espoo á sunnudaginn.

„Janne Puhakka vakti gríðarlega athygli þegar hann kom út úr skápnum, fyrstur atvinnumanna í ísknattleik í Finnlandi,“ segir Hujanen við NRK og bætir því við að málið sé nánast einstakt í Finnlandi þar sem það snúist um tvo menn sem utan frá séð virtust eiga í hamingjuríku sambandi.

„Enginn reiknar með manndrápi af þessu tagi á vettvangi finnsks millistéttarfólks,“ segir Hujanen við NRK.

NRK

NRK-II (manndráp að yfirlögðu ráði)

YLE

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert