Sjálfstæð nefnd hefur kallað eftir því að bandaríska öryggisþjónustan Secret Service verði stokkuð upp. Stofnunin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að koma ekki í veg fyrir banatilræði gegn Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í júlí.
„Skrifræði, sinnuleysi og kyrrstaða einkennir þjónustuna,” sagði í bréfi nefndarinnar til Alejandro Mayorkas, þjóðaröryggisráðherra í Bandaríkjunum.
Bréfinu fylgdi 52 blaðsíðna skýrsla fjögurra manna nefndarinnar.
„Grundvallarbreytingar þarf að gera á þjónustunni til að hún sem stofnun geti sinnt verkefnum sínum,“ sagði einnig í bréfinu.
Byssukúla strauk hægra eyra Trumps eftir að tvítugur byssumaður reyndi að ráða hann af dögum á kosningafundi í ríkinu Pennsylvaníu.
Einn áhorfandi lést og byssumaðurinn, Thomas Crooks, var skotinn til bana af leyniskyttum Secret Service.