Biðjast ekki afsökunar á þrælaviðskiptum

Konungurinn hefur raunar ekki heimild til þess að biðjast afsökunar …
Konungurinn hefur raunar ekki heimild til þess að biðjast afsökunar fyrir hönd landsins án samráðs og samþykkis bresku ríkisstjórnarinnar. Samsett mynd

Karl Bretakonungur og Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands munu ekki biðjast afsökunar fyrir hlutverk Bretlands í þrælaviðskiptum yfir Atlantshafið í heimsókn til Samóaeyja.

Þetta staðfestir talsmaður ríkisstjórnarinnar við BBC en hann hefur áður staðfest að fjárbætur vegna þrælaviðskipta Bretlands komi ekki til greina.

Konungurinn og forsætisráðherrann ferðast til Samóaeyja til að sækja leiðtogafund Breska samveldisins í næstu viku ásamt leiðtogum 56 landa.

Hefur breska ríkisstjórnin sagt að táknræn afsökunarbeiðni komi ekki til greina jafnvel þó að söguleg tengsl Bretlands við þrælahald kunni að vera nefnd á fundinum.

Má ekki biðjast afsökunar án leyfis

Í opinberri heimsókn í Kenía í fyrra sagði konungurinn að misgjörðir nýlendutímans væru hans stærsta sorg og eftirsjá. Baðst hann þó ekki afsökunar á hlutverki Bretlands.

Konungurinn hefur raunar ekki heimild til þess að biðjast afsökunar fyrir hönd landsins án samráðs og samþykkis bresku ríkisstjórnarinnar.

Höfðu sumir búist við því að Verkamannaflokksstjórn Keirs Starmer myndi snúa við blaði fyrri stjórna og biðjast formlega afsökunar á hlutverki Bretlands í þrælaviðskiptum, en svo virðist ekki ætla að verða.

Í staðinn verði áhersla lögð á málefni líðandi stundar svo sem sameiginlegar áskoranir og tækifæri sem samveldið standi frammi fyrir.

Konungurinn og forsætisráðherrann ferðast til Samóaeyja í næstu viku.
Konungurinn og forsætisráðherrann ferðast til Samóaeyja í næstu viku. AFP

Skiptar skoðanir

Margir hafa lengi gert ákall um slíka afsökunarbeiðni bæði í þeim löndum sem liðu fyrir nýlendustefnu Bretlands en einnig heima við, þ.á.m. sumir þingmenn Verkamannaflokksins.

Skiptar skoðanir eru á meðal almennings um hvort Bretlandi beri skylda til þess að biðjast afsökunar á gjörðum sem áttu sér stað á öðrum tíma. Á meðan sumir telja það kynslóðum í dag óviðkomandi segja aðrir breska ríkið bera ábyrgð á gjörðum fyrri stjórna landsins.

Andstæðingar þess að biðjast afsökunar hafa sömuleiðis bent á að Bretar hafi átt ríkan þátt í að binda enda á þrælahald, þar á meðal með löggjöf árið 1807 sem kvað á um afnám þrælaviðskipta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert