Sinwar var skotinn í höfuðið

Ísraelskir hermenn sáu Sinwar fyrir tilviljun.
Ísraelskir hermenn sáu Sinwar fyrir tilviljun. AFP

Banamein Yahya Sinwar, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Hamas, var skot í höfuðið.

Þetta kom í ljós eftir krufningu á líki Sinwar, að því er The New York Times greina frá, en hann lést á miðvikudag.

Ekki hafði sést til Sinwar síðan 7. október er Hamas réðst inn í Ísrael og drápu um 1.200 manns. Hann var talinn vera einn skipuleggjenda árásarinnar. 

Sáu Sinwar fyrir tilviljun

Í frétt New York Times er greint frá því að hópur ísraelskra hermanna hafi verið á ferð um borgina Rafah þegar þeir sáu þrjá palestínska vígamenn á ferð. Einn þeirra var Sinwar. 

Hermennirnir eltu vígamennina þrjá en Sinwar klofnaði frá hópnum og faldi sig í byggingu skammt frá. Einn hermannanna byrjaði að skjóta á bygginguna þar sem Sinwar faldi sig.

Ísraelskir fjölmiðlar og embættismenn hersins greina frá því að ekki var vitað til þess að Sinwar væri á svæðinu. 

Birtu myndskeið af síðustu augnablikum Sinwar

Ísraelski herinn birti myndskeið í kjölfar drápsins þar sem má sjá síðustu mínútur Sinwars á lífi. Hann situr í hægindastól þakinn ryki og horfir á drónann í örskamma stund áður en hann kastar priki í átt að honum.

Skömmu síðar var hann skotinn í höfuðið og lést.

Morguninn eftir árásina fannst lík hans í rústum hússins, sem hafði hrunið að hluta í kjölfar sprengjuárása, að sögn ísraelskra ráðamanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert