„Þú ert ekki kóngurinn minn!“

Lidia Thorpe á ástralska þinginu í morgun.
Lidia Thorpe á ástralska þinginu í morgun. AFP/Lukas Coch

Ástralska öldungadeildarþingkonan Lidia Thorpe hrópaði á Karl Bretakonung og gagnrýndi nýlendustefnu Breta er hann heimsótti ástralska þingið í morgun. Uppátækið vakti undrun á meðal þingmanna og annarra sem voru þar staddir.

„Láttu okkur hafa landið okkar aftur! Láttu okkur fá aftur það sem þú stalst frá okkur!“ öskraði Thorpe í næstum því einnar mínútna langri lotu að lokinni ræðu hins 75 ára Karls.

„Þetta er ekki landið þitt, þú ert ekki kóngurinn minn,“ sagði Thorpe og sagði evrópska landnema hafa framið þjóðarmorð á áströlskum frumbyggjum.

AFP/Lukas Coch

Ástralía var nýlenda Breta í yfir 100 ár. Á þeim tíma voru þúsundir ástralskra frumbyggja drepnir og heilu samfélögin flutt á brott.

Ástralía öðlaðist sjálfstæði árið 1901 en ekki að fullu og er Karl núverandi þjóðhöfðingi þess.

Karl konungur í Canberra, höfuðborg Ástralíu.
Karl konungur í Canberra, höfuðborg Ástralíu. AFP/Brook Mitchell

Karl er á níu daga ferðalagi um Ástralíu og Samóaeyjar.

Thorpe, sem er sjálf af frumbyggjaættum, hefur áður vakið athygli fyrir gagnrýni sína í garð breska konungsveldisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert