Á fjórða tug kvenna í óþarfa legnám

Háskólasjúkrahúsið í Uppsölum í Svíþjóð.
Háskólasjúkrahúsið í Uppsölum í Svíþjóð. AFP

Háskólasjúkrahúsið í Uppsölum í Svíþjóð hefur nú greint frá því að 33 konur hafi gengist undir óþarfa legnám eftir að hafa verið ranglega greindar í hættu á legkrabbameini.

Konurnar eru á aldrinum 38-85 ára og uppgötvuðust mistökin við endurskoðun á yfirliti eftir að tekið hafði verið eftir óútskýrðri fjölgun í nokkrum tilfellum.

Í yfirlýsingu frá sjúkrahúsinu kemur fram að konunum hafi verið sagt að þær væru með illkynja frumur í legslímu, sem eru undanfari legkrabbameins, og því hefði verið mælt með aðgerð. Það hefði svo komið í ljós síðar að greiningarnar reyndust rangar og aðgerðirnar hefðu verið ónauðsynlegar.

Geta sótt um skaðabætur

„Við hörmum mjög það sem gerðist. Að fjarlægja legið er mikil aðgerð sem hefur miklar og óafturkræfar afleiðingar. Þetta hefði ekki átt að gerast en samt gerðist það,“ segir Johan Lugnegard, yfirlæknir á sjúkrahúsinu, í yfirlýsingunni.

Lugnegard hefur einnig komið fram á blaðamannafundi þar sem haft er eftir honum að flestar konurnar hafi verið á sextugs- og sjötugsaldri.

Þá hefur verið greint frá því að konunum muni bjóðast að sækja um skaðabætur frá sjúkrahúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert