Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom til Ísraels í morgun til að þrýsta á um vopnahlé á Gasasvæðinu eftir að ríkisstjórn hans kallaði eftir endalokum stríðsins í Líbanon „eins fljótt og auðið er“.
Þetta er ellefta ferð Blinkens til Mið-Austurlanda síðan Hamas-samtökin réðust á Ísrael fyrir rúmu ári síðan sem hratt af stað stríðinu á Gasasvæðinu. Þetta er jafnframt fyrsta ferð hans á svæðið síðan átök Ísraels og Hisbollah-samtakanna hörðnuðu seint í síðasta mánuði.
Blinken mun hitta Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og fleiri háttsetta ísraelska embættismenn á sama tíma og Ísraelar íhuga viðbrögð sín við flugskeytaárás Írans á landið 1. október.
Fyrri tilraunir Bandaríkjanna til að binda enda á stríðið á Gasasvæðinu hafa mistekist, rétt eins og tilraun undir forystu Joes Bidens Bandaríkjaforseta og Emmanuels Macrons Frakklandsforseta sem átti að tryggja tímabundið vopnahlé í Líbanon.
Að lokinni heimsókninni til Ísraels mun Blinken ferðast til Jórdaníu á miðvikudag til að ræða mannúðaraðstoð fyrir Gasasvæðið.