Býður kjósendum pening gegn undirskrift

Elon Musk.
Elon Musk. AFP/Sergei Gapon

Spurn­ing­ar hafa vaknað um nýj­asta út­spil Elons Musks sem býður nú sum­um kjós­end­um í Banda­ríkj­un­um fjár­muni gegn því að þeir skrifi nafn sitt á und­ir­skriftal­ista.

List­inn er á veg­um America PAC, her­ferðar­hóps Musks, sem var stofnaður til að styðja Don­ald Trump í kom­andi for­seta­kosn­ing­um þar í landi.

Kjós­end­um í Penn­sylvan­íu eru boðnar pen­inga­upp­hæðir fyr­ir að skrifa nafn sitt á und­ir­skrift­arlist­ann.

Á hverj­um degi er svo einn kjós­andi úr sveiflu­ríki, sem rit­ar nafn sitt á und­ir­skrift­arlist­ann, val­inn af handa­hófi og hlýt­ur viðkom­andi eina millj­ón Banda­ríkja­dali í verðlaun.

Lög­fróðir hafa bent á að það að bjóða fjár­muni fyr­ir at­höfn sem krefst þess að ein­hver sé skráður kjós­andi gæti brotið í bága við lög í Banda­ríkj­un­um.

BBC grein­ir frá. 

Bjóða 100 Banda­ríkja­dali í Penn­sylvan­íu­ríki

Und­ir­skrifta­söfn­un­in sem um ræðir hvet­ur kjós­end­ur í sveiflu­ríkj­um til að skrifa und­ir und­ir­skrift­ar­söfn­un í þágu mál­frels­is og rétt­ar til að bera vopn.

Í um­fjöll­un BBC seg­ir að kjós­end­um í sveiflu­ríkj­un­um Georgíu, Nevada, Arizona, Michigan, Wiscons­in og Norður-Karólínu sem und­ir­rita list­ann og fá aðra til að gera slíkt hið sama sé lofað um 47 Banda­ríkja­döl­um fyr­ir vikið.

Kjós­end­um í Penn­sylvan­íu er þó lofað enn hærri upp­hæð fyr­ir annað hvort að skrifa und­ir list­ann eða fá aðra til að skrifa und­ir, eða allt að 100 Banda­ríkja­döl­um.

Marg­ir telja það ríki geta ráðið úr­slit­um í kosn­ing­un­um.

Á hverj­um degi fram að kosn­ing­um verður svo einn kjós­andi sem skrif­ar und­ir val­inn af handa­hófi og hlýt­ur eina millj­ón Banda­ríkja­dala.

Eigi yfir höfði sér sekt eða fang­els­is­dóm

Paul Schiff Berm­an, pró­fess­or í lög­fræði við Geor­ge Washingt­on-há­skól­ann, tel­ur lík­legt að út­spil Musks sé ólög­legt.

Bend­ir hann á kosn­inga­lög Banda­ríkj­anna þar sem seg­ir að hver sá sem greiðir eða býðst til að greiða eða þigg­ur greiðslu, annað hvort fyr­ir skrán­ingu til að kjósa eða til að kjósa, eigi yfir höfði sér hugs­an­lega sekt upp á 10.000 Banda­ríkja­dali eða fimm ára fang­els­is­dóm.

„Til­boð hans er aðeins opið skráðum kjós­end­um, svo ég held að til­boð hans gangi í bága við þetta ákvæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert