Býður kjósendum pening gegn undirskrift

Elon Musk.
Elon Musk. AFP/Sergei Gapon

Spurningar hafa vaknað um nýjasta útspil Elons Musks sem býður nú sumum kjósendum í Bandaríkjunum fjármuni gegn því að þeir skrifi nafn sitt á undirskriftalista.

Listinn er á vegum America PAC, herferðarhóps Musks, sem var stofnaður til að styðja Donald Trump í komandi forsetakosningum þar í landi.

Kjósendum í Pennsylvaníu eru boðnar peningaupphæðir fyrir að skrifa nafn sitt á undirskriftarlistann.

Á hverjum degi er svo einn kjósandi úr sveifluríki, sem ritar nafn sitt á undirskriftarlistann, valinn af handahófi og hlýtur viðkomandi eina milljón Bandaríkjadali í verðlaun.

Lögfróðir hafa bent á að það að bjóða fjármuni fyrir athöfn sem krefst þess að einhver sé skráður kjósandi gæti brotið í bága við lög í Bandaríkjunum.

BBC greinir frá. 

Bjóða 100 Bandaríkjadali í Pennsylvaníuríki

Undirskriftasöfnunin sem um ræðir hvetur kjósendur í sveifluríkjum til að skrifa undir undirskriftarsöfnun í þágu málfrelsis og réttar til að bera vopn.

Í umfjöllun BBC segir að kjósendum í sveifluríkjunum Georgíu, Nevada, Arizona, Michigan, Wisconsin og Norður-Karólínu sem undirrita listann og fá aðra til að gera slíkt hið sama sé lofað um 47 Bandaríkjadölum fyrir vikið.

Kjósendum í Pennsylvaníu er þó lofað enn hærri upphæð fyrir annað hvort að skrifa undir listann eða fá aðra til að skrifa undir, eða allt að 100 Bandaríkjadölum.

Margir telja það ríki geta ráðið úrslitum í kosningunum.

Á hverjum degi fram að kosningum verður svo einn kjósandi sem skrifar undir valinn af handahófi og hlýtur eina milljón Bandaríkjadala.

Eigi yfir höfði sér sekt eða fangelsisdóm

Paul Schiff Berman, prófessor í lögfræði við George Washington-háskólann, telur líklegt að útspil Musks sé ólöglegt.

Bendir hann á kosningalög Bandaríkjanna þar sem segir að hver sá sem greiðir eða býðst til að greiða eða þiggur greiðslu, annað hvort fyrir skráningu til að kjósa eða til að kjósa, eigi yfir höfði sér hugsanlega sekt upp á 10.000 Bandaríkjadali eða fimm ára fangelsisdóm.

„Tilboð hans er aðeins opið skráðum kjósendum, svo ég held að tilboð hans gangi í bága við þetta ákvæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert