Jeffries handtekinn og ákærður fyrir mansal

Jeffries og samverkamenn hans eru sagðir hafa varið milljónum dollara …
Jeffries og samverkamenn hans eru sagðir hafa varið milljónum dollara í framkvæmd mansalsins til að tryggja gang þess og leynd. AFP

Búið er að handtaka og ákæra Mike Jeffries, fyrrverandi forstjóra fatabúðarinnar Abercrombie og Fitch, fyrir mansal karlkyns fyrirsæta og fyrir að brjóta kynferðislega á þeim.

Er hann sakaður um að hafa flutt fyrirsæturnar á milli svallveislna víða um heim.

Ásamt Jeffries voru maki hans Matthew Smith, og samverkamaður þeirra James Jacobson, handteknir.

Gylliboð um frægð og frama

Talið er að mennirnir þrír hafi ginnt fyrirsæturnar með gylliboðum um atvinnutækifæri, frægð og frama til þess að sækja umræddar veislur.

Fyrirsætunum var ekki gerð grein fyrir eðli veislnanna áður en þær sóttu þær, að því er fram kemur í ákærunni.

Þríeykið er sakað um að hafa otað áfengi og eiturlyfjum að fyrirsætunum og að þær hafi hvorki gefið né verið færar um að gefa samþykki fyrir þeim kynlífsathöfnum sem fóru fram í veislunum.

Ætla að sækja fyrirtækið til saka

Í ákærunni er vísað til fimmtán brotaþola en talið er að mun fleiri hafi verið misnotaðir af mönnunum þremur sem eru sagðir hafa beitt afli, svikum og kúgunum til þess að uppfylla kynferðislegar langanir sínar.

Þeir eru sagðir hafa varið milljónum dollara í framkvæmd mansalsins til að tryggja gang þess og leynd.

Brittany Henderson, einn lögmanna brotaþolanna, segir handtöku og ákæru dagsins vera stórt skref í átt að réttlæti en að hér verði ekki staðar numið.

Hún segir að sækja verði fyrirtækið sjálft til saka fyrir aðild sína að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert