Pútín býður vesturveldum birginn: BRICS-ríki funda

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AFP/Valery Sharifulin

Á þriðja tug leiðtoga heimsins safnast saman í Rússland í dag þegar þriggja daga ráðstefna BRICS-hópsins hefst. Hópurinn samanstendur af þjóðum sem rússnesk stjórnvöld vonast til að geti boðið vesturveldum birginn.

Xi Jinping við komuna til Kazan.
Xi Jinping við komuna til Kazan. AFP

Ráðstefnan er sú fjölmennasta af þessum toga síðan Rússar réðust inn í Úkraínu. Vladimír Pútín Rússlandsforseti vill með henni sýna fram á að tilraunir vestrænna ríkja til að einangra Rússa vegna stríðsins í Úkraínu hafi mistekist.

Kínverski leiðtoginn Xi Jinping, indverski forsætisráðherrann Narendra Modi og tyrkneski forsetinn Recep Tayyip Erdogan, sem eru allir mikilvægir samherjar Rússa, verða allir viðstaddir ráðstefnuna, sem er haldin í borginni Kazan í vesturhluta Rússlands.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, á flugvellinum í Kazan í morgun.
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, á flugvellinum í Kazan í morgun. AFP/Maksim Blinov

Pútín, Modi, Xi og Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, eru þegar mættir til Kazan.

Lykilríki í BRICS eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka. Eitt stærsta málið á dagskrá ráðstefnunnar er hugmynd Pútíns um nýtt greiðslukerfi sem kæmi í staðinn fyrir SWIFT, alþjóðlega greiðslukerfið, sem Rússum var meinaður aðgangur að árið 2022. Einnig verður rætt um stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert